Enski boltinn

„Móðgandi“ tilboð frá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kalidou Koulibaly heilsar Jordan Henderson fyrir leik Napoli og Liverpool í Meistaradeildinni.
Kalidou Koulibaly heilsar Jordan Henderson fyrir leik Napoli og Liverpool í Meistaradeildinni. Getty/Michael Regan

Liverpool fer greinilega varlega í öll leikmannakaup þessa daganna og kannski of varlega. Liverpool hætti við að kaupa þýska framherjann Timo Werner á dögunum og nú lítur út fyrir að annar leikmaður sem hefur verið orðaður mikið við Anfield sé að fara annað.

Timo Werner endaði hjá Chelsea og nú gæti annað uppáhald hjá Jürgen Klopp endað hjá erkifjendunum í Manchester United.

Ítalska blaðið Corriere dello Sport slær því upp að Liverpool hafi boðið 54 milljónir punda í Kalidou Koulibaly hjá Napoli. Það er miklu minna en Ítalarnir vilja fá.

Kalidou Koulibaly er orðinn 29 ára gamall en það breytir því ekki að Napoli vill fá miklu meira fyrir hann. Tilboðið frá Liverpool á því að hafa móðgað forráðamenn Napoli sem horfa nú frekar til liða eins og Paris Saint Germain og Manchester United til að fá ásættanlegan pening fyrir leikmanninn.

Miðvarðarpar skipað þeim Virgil van Dijk og Kalidou Koulibaly væri vissulega áhugavert og spennandi fyrir stuðningsmenn Liverpool en það eru ekki miklar líkur á því að það verði að veruleika eftir þetta útspil Liverpool.

Napoli vill fá 90 milljónir punda fyrir Kalidou Koulibaly og segist ekki ætla að selja hann fyrir minna. Tilboðið frá Liverpool var því hálfgerð móðgun.

Senagalinn hefur verið í hópi bestu miðvarða heims síðustu ár og á mikinn þátt í velgengni Napoli liðsins á þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×