Enski boltinn

Burnley síðasta liðið til að spila en kálfinn stoppar Jóhann Berg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley liðinu.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley liðinu. Vísir/Getty

Aðeins eitt lið í allri ensku úrvalsdeildinni hefur ekki spilað leik eftir að deildin fór aftur af stað eftir kórónuveirufaraldurinn.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley spila í kvöld sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í þrjá og hálfan mánuð þegar liðið heimsækir Manchester City.

Mótherjarnir í Manchester City höfðu spilað frestaðan leik fyrir helgi og öll hin liðin sem voru ekki búin að spila áttu leiki um helgina.

Síðasti leikur Burnley var á móti Tottenham á heimavelli 7. mars síðastliðinn og endaði með 1-1 jafntefli. Síðan eru liðnir 107 dagar.

Jóhann Berg Guðmundsson missti af leiknum á móti Tottenham vegna meiðsla sem og síðustu átta deildarleikjum liðsins fyrir að öllum leikjum var frestað vegna COVID-19. Hann verður ekki heldur með í kvöld þar sem kálfameiðsli hans tóku sig upp.

Síðasti leikur Jóhanns Berg Guðmundssonar í ensku úrvalsdeildinni var á móti Aston Villa á Nýársdag.

Jóhann Berg kom þá inn á sem varamaður í hálfleik. Þremur dögum síðar var hann í byrjunarliðinu í bikarleik á móti Peterborough en fór þá meiddur af velli í hálfleik.

Þetta þýðir að Jóhann Berg hefur beðið í 170 daga eftir að spila með Burnley liðinu eða síðan frá þessum bikarleik 4. janúar síðastliðnum. Sú bið mun lengjast enn frekar en vonandi styttist í endurkomuna hjá okkar manni.

Eftir leikinn í kvöld verða öll liðin í ensku úrvalsdeildinni búin að spila 30 leiki sem þýðir jafnframt að þau eiga öll eftir átta leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×