Enski boltinn

Fyrsta þrennan hjá leikmanni Manchester United síðan 2013

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martial varð í kvöld fyrsti leikmaður Man Utd til að skora þrennu síðan 2013.
Martial varð í kvöld fyrsti leikmaður Man Utd til að skora þrennu síðan 2013. Simon Stacpoole/Getty Images

Anthony Martial gerði þrennu er Manchester United lagði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur fyrir tómum Old Trafford 3-0 heimamönnum í vil. Alls eru komin sjö ár síðan leikmaður liðið skoraði þrennu.

Þar var að verki Robin van Persie gegn Aston Villa fyrir fullum Old Trafford en leikurinn fór einnig 3-0. Leikurinn fór fram 22. apríl 2013 og var aðeins meiri spenna fyrir hann heldur en leik dagsins.

Man United gat nefnilega tryggt sér Englandsmeistaratitilinn með sigri þann daginn sem þeir og gerðu. Ekki nóg með að enginn leikmaður liðsins hafi skorað þrennu þá hefur liðið ekki unnið deildina síðan van Persie tryggði þeim sigur á Aston Villa.

Robin van Persie fagnar eftir sigurinn á Aston Villa en þá var ljóst að Man Utd væri Englandsmeistari.EPA/PETER POWELL

Ef til vill muna flestir stuðningsmenn Manchester United eftir einu marki Persie í leiknum en hann fékk þá langa sendingu frá Wayne Rooney yfir vörn Aston Villa, tók boltann á lofti við vítateigslínuna og þrumaði honum í netið.

Undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hefur Man Utd liðið bæði skorað fimm mörk í fyrsta skipti síðan Sir Alex Ferguson var þjálfari og nú hefur leikmaður liðsins skorað þrennu í fyrsta skipti síðan Sir Alex Ferguson var við stjórnvölin.

Hver veit nema Norðmanninum takist að leika fleiri þrekvirki Skotans eftir á komandi misserum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×