Skoðun

Auð­lindir og pólitík

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Ríkisstjórnin vinnur nú hörðum höndum að því að koma í gegnum þingið, á mettíma, frumvarpi sem varðar grundvallarhagsmuni um ráðstöfun jarða, auðlindapólitík. Máli sem á skilið mun meiri umræðu en ríkistjórnin kýs. En kannski ætti það líka alltaf að vekja spurningar þegar Framsóknarflokkur, Vinstri Græn og Sjálfstæðisflokkur koma sér saman um leið til að ráðstafa auðlindum landsins.

Eitt af markmiðum frumvarpsins er að draga úr samþjöppun eignarhalds á landi, sem er gott markmið. Það skiptir máli að landnýting sé í samræmi við almannahagsmuni. Leiðin sem er valin er aftur á móti varhugaverð – að heimild ráðherra þurfi fyrir tilteknum ráðstöfunum jarða.

Jarðakaup sem eru háð rannsókn og mati ráðherra opna fyrir pólitíska íhlutun. Opið orðalag um völd ráðherra varðandi kaup og sölu á jörðum opnar á að pólitík verði samofin jarðakaupum. Undirliggjandi markmið virðist vera að taka á kaupum útlendinga.

Sjálfur hraðinn á málinu er líka athyglisverður. Það er mikilvægt að stór mál á borð við þetta séu unnin af vandvirkni, ef markmiðið er að sátt skapist um þau. Það er ekki sérstaklega hávært ákall um þessar lagabreytingar í samfélaginu og umsagnir um frumvarpið eru margar mjög neikvæðar. Þar segir meðal annars að breytingarnar geti dregið úr fjárfestingu og verðmætasköpun fyrir bændur, ferðaþjónustuna og aðra sem hluti eiga í jörðum. Ættu slíkar umsagnir ekki að vekja stjórnvöld til umhugsunar?

Útfærslan mun hafa mikið um það að segja hvort niðurstaðan verður sú að standa vörð um almannahagsmuni. Þess vegna þarf að ræða leiðina. Það er sömuleiðis ástæða til að líta víðtækar takmarkanir á eignarétti gagnrýnum augum. Það á sérstaklega við þegar vilji stjórnvalda virðist standa til að drífa mál í gegn um þingið, án alvöru umræðu og í miklum hraði.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×