Átján ára gamall karlmaður var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa kastað sex ára gömlum dreng fram af svölum á tíundu hæð Tate Modern listasafnsins í Lundúnum í fyrra. Maðurinn þarf að sitja minnst fimmtán ár í fangelsi áður en hann mun eiga möguleika á reynslulausn.
Drengurinn féll niður um þrjátíu metra og slasaðist mjög alvarlega. Hann fékk blæðingu inn á heila, mæna hans varð fyrir skemmdum og hann hlaut fjölda beinbrota. Karlmaðurinn, sem ber nafnið Jonty Bravery, er sagður hafa skipulag árásina og beint spjótum sínum að ungum börnum þegar atvikið átti sér stað í ágúst síðastliðnum.
Upptökur úr öryggismyndavélum safnsins sýna að Bravery elti ung börn sem voru á safninu og litaðist um á svölum, að því er virðist til að gá hvernig öryggishandrið væru staðsett. Þá náðist einnig á myndband þegar drengurinn gekk í átt að Bravery, en drengurinn var á ferðalagi með fjölskyldu sinni í Lundúnum en þau eru frönsk.
Þá sagði Deanna Heer, saksóknari í málinu, að á myndbandinu megi einnig sjá hvernig Bravery greip í drenginn, gekk með hann að handriðinu og kastaði honum yfir án þess að hika. Drengurinn féll með höfuðið á undan og lenti á svölum á fimmtu hæð.
Eins og áður sagði slasaðist drengurinn alvarlega og mun hann þarfnast sólarhrings aðstoðar að minnsta kosti til ársins 2022 segir í frétt breska ríkisútvarpsins. Drengurinn hefur verið í hjólastól frá atvikinu og er enn á sjúkrahúsi.