Fótbolti

Sané fer loks frá Man City til Bayern í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sané í leiknum gegn Liverpool þar sem hann sleit krossbönd.
Sané í leiknum gegn Liverpool þar sem hann sleit krossbönd. Michael Regan/Getty Images

Bayern Munich er búið að ganga frá kaupum á Leroy Sané, leikmanni Manchester City. Mun hann ganga til liðs við þýska stórveldið í sumar.

Christian Falk – yfirmaður fótboltafrétta hjá þýska miðlinum Bild – hefur staðfest að Sané sé á leið til Bayern frá Manchester City. Orðrómar þess efnis hafa verið háværir í nær allan vetur og nú hefur þetta loks fengist staðfest.

Sané mun kosta Bayern tæpar 55 milljónir punda eða vel yfir níu milljarða íslenskar. Skrifar hann undir fimm ára samning við félagið.

Sané gekk í raðir Manchester City frá Schalke 04 sumarið 2016 og var stór hluti af City-liðinu sem landaði Englandsmeistaratitlinum árin 2018 og 2019. Talið var að Sané myndi ganga í raðir Bayern síðasta sumar en hann sleit krossbönd í leiknum um Góðgerðarskjöldinn síðasta haust og ekkert varð úr félagaskiptunum.

Áhugi Bayern hefur ekki minnkað þó svo að Sané hafi verið frá keppni síðan þá og nú hafa þeir fengið sinn mann.

Alls hefur hinn 24 ára gamli Sané leikið 25 landsleiki fyrir Þýskaland og gert í þeim fimm mörk.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×