Á þriðja hundrað bifhjólamanna komu saman við höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í dag til að krefjast bættra vega. Mínútu þögn var vegna fallinna bifhjólamanna í umferðinni.
Vegagerðin hefur fengið á sig harða gagnrýni eftir hörmulegt umferðarslys á Vesturlandsvegi um Kjalarnes þegar bifhjólamenn lentu í árekstri við húsbíl með þeim afleiðingum að tveir létust og einn slasaðist.
Vegagerðin hefur þegar viðurkennt að malbik á umræddum vegarkafla var ekki samkvæmt stöðlum og voru fleiri vegakaflar teknir til skoðunar. Þegar hefur verið brugðist við með aðgerðum. Umræddur vegarkafli á Kjalarnesi var sandborinn í gær, þá var nýtt malbik á Höfðabakka við Gullinbrú fræst af og þá á að laga slitlag á Reykjanesbraut við Vífilstaði.
Bifhjólamenn kröfðust þess í dag að gripið yrði strax til aðgerða á fleiri stöðum. Komu þeir saman eftir hádegi við höfuðstöðvar Vegagerðarinnar þar sem lesin var upp yfirlýsing og svo var mínútu þögn.
„Við erum búin að fá nóg“
„Hörmulegur atburður hefur orðið til þess að öll sem eitt höfum við risið upp og segjum öll hið það sama. Við erum búin að fá nóg,“ sagði Jokka G. Birnudóttir, í stjórn Sniglanna, í yfirlýsingu sem lesin var upp í upphafi fundarins.
„Þetta hljómar mjög illa. Þessar fréttir um hvernig malbikið er sett saman eru eiginlega fjarstæðukenndar að maður áttar sig ekki alveg á þessu,“ sagði Hrafnkell Sigtryggsson, bifhjólamaður sem mætti á fundinn.
„Þetta eru of miklar fórnir sem eru færðar fyrir einhverja tilraunastarfsemi hjá Vegagerðinni. Það er bara ekki boðlegt,“ sagði Halldór Sigtryggson, bifhjólamaður sem mætti á fundinn og vill sjá aðgerðir strax.
„Það er þetta sama malbik út um allt. þetta er ömurlegt. Það er búið að benda þeim á þetta í mörg ár,“ sagði Kristrún Tryggvadóttir, bifhjólamaður sem sagði hafa lent í sambærilegum aðstæðum og voru á veginum um Kjalarnes um helgina.
„Já og þetta er alltaf þegar maður sér þetta að þá bregst maður við og fer ofur varlega,“ sagði Kristrún.
Bifhjólamenn gagnrýndu Vegagerðina einnig fyrir viðbragðsleysi við umkvörtunum á síðustu árum.
Er það viðurkennt að hálfu Vegagerðarinnar að svo sé?
„Ég get svo sem ekki gefið komment á það, ég verð bara að segja eins og er. Þarna erum við bara með einstakar aðstæður sem eru sérlega erfiðar og óásættanlegar að okkar mati. Við vitum hins vegar að malbik í rigningu er hált þó að það sé ekki umfram þá staðla sem settir eru og verður alltaf viðsjárvert. Ný lagt malbik er hálla en annað malbik það er staðreynd en þessi tiltekni kafli hann umfram það sem við getum sætt okkur við,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.