Íslenski boltinn

Logi Tómasson í FH | Ívar Örn til HK | Fjölnir fá danskan framherja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Logi Tómasson varð bikarmeistari með Víkingum síðasta sumar eftir 1-0 sigur á FH. Hann mun nú spila með FH út þetta tímabil hið minnsta.
Logi Tómasson varð bikarmeistari með Víkingum síðasta sumar eftir 1-0 sigur á FH. Hann mun nú spila með FH út þetta tímabil hið minnsta. vísir/vilhelm

Logi Tómasson, vinstri bakvörður, er genginn í raðir FH en frá þessu greindi Davíð Þór Viðarsson í Pepsi Max Stúkunni nú rétt í þessu. Logi kemur á láni frá Víkingum út tímabilið og munu Hafnfirðingar hafa möguleika á því að kaupa Loga þegar tímabilinu lýkur. 

Hinn 19 ára gamli Logi hefur alls leikið 38 leiki í meistaraflokki fyrir Víking og Þrótt. Hann heldur nú í Hafnafjörðinn og mun leika með FH út tímabilið allavega. Alls kom Logi að 16 leikjum Víkinga í Pepsi Max deildinni á síðustu leiktíð, þá hafði hann komið við sögu í tveimur af þremur leikjum í deildinni til þessa.

Víkingar unnu stórsigur á FH í síðustu umferð. Lokatölur 4-1 og Víkingar allt í einu komnir í toppbaráttu deildarinnar. Var þetta fyrsti tapleikur FH en liðið hafði lagt HK og ÍA í fyrstu tveimur umferðum mótsins.

Ívar Örn Jónsson er annar vinstri bakvörður sem færir sig um set samkvæmt heimildum manna í Pepsi Max Stúkunni. Ívar Örn hefur verið fastur á varamannabekk Vals undanfarin misseri en þar áður lék hann með Víkingum og HK. 

Hann heldur nú heim í Kópavog og mun leika með HK.

Þá eru nýliðar Fjölnis að styrkja sig en þeir eru að fá framherja frá danska félaginu Viborg. Sá heitir Christian Sivebæk og er 32 ára gamall. Hefur hann skorað sjö mörk ásamt því að leggja upp önnur sex á þessari leiktíð. 

Fjölnir gerði jafntefli við Víking í fyrstu umferð en hefur síðan þá tapað gegn bæði Stjörnunni og Breiðabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×