Enski boltinn

Jöfnunarmark tekið af Kane þegar Sheffield skellti Tottenham

Ísak Hallmundarson skrifar
McBurnie fagnar marki sínu í kvöld. 
McBurnie fagnar marki sínu í kvöld.  getty/ Alex Livesey

Sheffield United sigraði Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag með þremur mörkum gegn einu. 

Sander Berge kom heimamönnum í Sheffield yfir á 31. mínútu með laglegu skoti, en tveimur mínútum síðar virtist markahrókurinn Harry Kane vera að jafna metin. Allt kom fyrir ekki, þegar markið var skoðað í VARsjánni virtist boltinn fara í hendina á Lucas Moura sem lá í grasinu í aðdraganda marksins. Markið var dæmt af, við mikinn ófögnuð stuðningsmanna Tottenham.

Lys Mousset tvöfaldaði forskot Sheffield á 69. mínútu og á 84. mínútu var staðan orðin 3-0 þegar Ollie McBurnie skoraði. 

Harry Kane náði að skora sárabótarmark fyrir Tottenham í uppbótartíma, lokatölur 3-1 fyrir Sheffield, sem eru komnir aftur á sigurbraut eftir tvo tapleiki í röð.

Sheffield fer upp í sjöunda sætið í deildinni með 47 stig, Tottenham situr í níunda sæti með 45 stig og má segja að von þeirra á Meistaradeildarsæti sé úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×