Bikarmeistarar Víkings heimsóttu Íslandsmeistara KR í Frostaskjólið um helgina í Pepsi Max deildinni í fótbolta. Leikurinn – sem var ef til vill ekki mikið fyrir augað hvað varðar fótbolta – var þó merkilegur fyrir margar sakir.
KR hefur nú unnið fjóra leiki í röð gegn Víkingum. Báðir deildarleikir liðanna í fyrra fóru 1-0 og þá vann KR leik liðanna í Meistarakeppni KSÍ, einnig 1-0. Leiknum í gær lauk hins vegar með 2-0 sigri KR og það sem meira er, Víkingar enduðu leikinn með átta leikmenn á vellinum.
Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson – miðverðir Víkinga í leiknum – sáu allir rautt. Hvort rauðu spjöldin áttu rétt á sér verður ósagt látið en leikur helgarinnar var 450. deildarleikur Kára Árna á ferlinum.
Víkingar verða því án miðvarðanna þriggja þegar liðið fær Val í heimsókn í Víkina á miðvikudaginn kemur. Sá leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Kári hefur alls leikið 55 deildarleiki hér á landi, alla með Víking Reykjavík. Erlendis hefur Kári svo leikið með fjölda liða.
Hann lék 72 leiki með Djurgården og Malmö í Svíþjóð, 58 leikir komu með AGF og Esbjerg í Danmörku. Flesta leiki lék hann á Englandi eða 191 talsins með Plymouth og Rotherham, aðrir 53 komu með Aberdeen í Skotlandi. Átta með Omonia á Kýpur og að lokum þrettán í Tyrklandi með Gençlerbirliği.
Alls eru þetta 450 leikir í sjö löndum.
Í upphafi móts var Kári í 14. sæti yfir leikjahæstu Íslendinga en hann hefur nú unnið sig upp í 11. sæti. Fari svo að Kári nái öllum leikjum Íslandsmótsins sem eftir eru – nema leik liðsins gegn Val í næstu umferð þar sem Kári verður í leikbanni – þá verður landsliðsmaðurinn öflugi kominn upp í 7. sæti listans.
Kári á þó langt í land með að ná efstu mönnum en Arnór Guðjohnsen, Ívar Ingimarsson, Hermann Hreiðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen léku allir yfir 500 leiki á ferlinum.
523 Arnór Guðjohnsen
520 Ívar Ingimarsson
512 Hermann Hreiðarsson
504 Eiður Smári Guðjohnsen
492 Heiðar Helguson
481 Ásgeir Sigurvinsson
465 Arnar Þór Viðarsson
462 Atli Eðvaldsson
462 Rúnar Kristinsson
460 Tryggvi Guðmundsson
450 Kári Árnason