Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur tilkynnt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) formlega um úrsögn sína. Úrsagnarferlið er talið geta tekið að minnsta kosti ár en Trump lýsti því yfir að hann vildi segja skilið við stofnuninni vegna kórónuveirufaraldursins í maí.
Leiðtogar Evrópusambandsríkja og fleiri hafa reynt að telja Trump hughvarf en nú hefur hann sent bæði Bandaríkjaþingi og Sameinuðu þjóðunum formlega staðfestingu á að Bandaríkin ætli sér að hætta þátttöku í WHO. Úrsögnin á að taka gildi 6. júlí á næsta ári, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Trump hefur setið undir harðri gagnrýni fyrir fát og flumbrugang í viðbrögðum hans við kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum. Rúmlega 130.000 manns hafa látið lífið þar og rúmlega þrjár milljónir manna smitast.
Fyrir vikið hefur Trump reynt að dreifa athyglinni, meðal annars með því að saka WHO um að vera undir hælnum á kínverskum stjórnvöldum. Stofnunin hafi „afvegaleitt heimsbyggðina“ um faraldurinn. Engu að síður fékk ríkisstjórn Trump upplýsingar um að faraldur væri í gerjun í Kína þegar í kringum áramót. Aðhafðist hún lítið sem ekkert til að fyrirbyggja að veiran næði fótfestu í Bandaríkjunum eða búa sig undir að fólk veiktist.
Upphaflega tilkynnti Trump að hann ætlaði að stöðva fjárframlög til WHO tímabundið til að þrýsta á um umbætur. Síðar sagðist hann ætla að draga Bandaríkin alfarið út úr alþjóðasamstarfinu.
Bandaríkin hafa lagt mest fé allra ríkja til WHO, um 15% af heildarfjárhagsáætlun hennar í fyrra. Framtíð stofnunarinnar og ýmissa verkefna á sviði smitvarna eftir úrsögn Bandaríkjanna er ekki ljós. WHO vinnur meðal annars að þróun bóluefnis gegn Covid-19.