Fótbolti

Búið að draga í Meistaradeildinni | Ronaldo gæti mætt sínum gömlu félögum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo átti ekki sinn besta dag er Juventus tapaði 1-0 fyrir Lyon í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum.
Ronaldo átti ekki sinn besta dag er Juventus tapaði 1-0 fyrir Lyon í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum. Monika Majer/Getty Images

Dregið var í dag í 8-liða og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Það sem eftir er af keppninni verður frábrugðið því sem við erum vön.

Í stað þess að lið spili heima og að heiman verður aðeins einn leikur til að skera úr um hvaða lið fer áfram. Munu allir leikir keppninnar sem eftir eru fara fram í Lisabon í Portúgal. Leikið verður á Estadio do Sport Lisboa, heimavelli Benfica og á Estadio Jose Alvalade sem er heimavöllur Sporting.

Enn á eftir að klára nokkrar viðureignir í 16-liða úrslitum en það gæti til að mynda farið svo að Cristiano Ronaldo mæti sínum gömlu félögum í Real Madrid í 8-liða úrslitum. Þá þyrftu bæði Juve og Real að vinna síðari leiki sína gegn Lyon og Manchester City.

Lionel Messi og félagar í Barcelona þurfa að landa sigri í síðari leik sínum gegn Napoli til að fara áfram. Þar bíður þeirra að öllum líkindum Bayern Munich en þýska liðið vann Chelsea 3-0 á Brúnni í Lundúnum í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum.

RB Leipzig mætir Atletico Madrid og hið stórskemmtilega Atalanta mætir stjörnuprýddu liði Paris Saint-Germain.

Einnig var dregið í undanúrslit keppninnar. Sigurvegarinn úr viðureign Leipzig og Atl. Madrid mun mæta sigurvegaranum úr viðureign Atalanta og PSG. 

Erfiðara er að rýna í hinn undanúrslitaleikinn en þar verður eitt af þessum fjórum liðum: Real Madrid, Manchester City, Lyon eða Juventus. Mótherjinn verður sigurvegarinn úr viðureign Bayern Munich [nema Chelsea komi verulega á óvart í Þýskalandi] gegn Napoli eða Barcelona. 

8-liða úrslitin verða leikin frá 12. til 15. ágúst og undanúrslitin 18. og 19. ágúst. Verða allir leikirnir í beinni útsendingu Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×