Enski boltinn

Peter Crouch nefnir þrjú lið sem gætu skorað Liverpool á hólm

Ísak Hallmundarson skrifar
Peter Crouch spáir í spilin.
Peter Crouch spáir í spilin. getty/Paul Gilham

Peter Crouch, fyrrum atvinnumaður í fótbolta sem hefur meðal annars leikið fyrir Liverpool, Stoke, Tottenham og enska landsliðið, nefnir þrjú lið sem hann telur geta veitt Liverpool samkeppni um Englandsmeistaratitilinn á næsta tímabili.

Hann segir að Liverpool þurfi ekki eingöngu að hafa áhyggjur af Manchester City, Manchester United og Chelsea muni vera mun sterkari á næstu leiktíð en yfirstandandi leiktíð. 

Chelsea situr í þriðja sæti í deildinni eins og staðan er núna og hefur farið fram úr væntingum margra undir stjórn Franks Lampard, þar sem liðið var í félagsskiptabanni fyrir tímabilið.

Manchester United hefur á meðan spilað frábærlega síðan í byrjun febrúar á þessu ári og hefur ekki tapað leik í 17 leikjum í röð í öllum keppnum. 

Liverpool vann titilinn í ár nokkuð auðveldlega en ekkert lið hefur unnið ensku úrvalsdeildina í jafnfáum leikjum. Liðið hefur aðeins tapað tíu stigum í 34 leikjum og getur enn bætt stigamet Manchester City í deildinni frá árinu 2018. 

Crouch telur hinsvegar að liðið eigi erfiðara verk fyrir höndum á næsta tímabili.

„Það hljómar kannski augljóst, en Manchester City mun vera stór ógn. Chelsea verður spennandi, ég hlakka til að sjá hvernig Hakim Ziyech og Timo Werner passa inn í liðið. 

Ég er að fylgjast með Manchester United í augnablikinu, guð minn góður, hversu vel lítur Mason Greenwood út? Rio Ferdinand hefur talað um hann í langan tíma en að fylgjast með honum síðustu vikur hefur verið einn af hápunktum tímabilsins. 

Það er margt til að hlakka til á næsta tímabili, en Liverpool mun áfram vera liðið sem þarf að vinna,“ sagði Peter Crouch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×