Fótbolti

Napoli og AC Milan skildu jöfn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Francesco Pecoraro/Getty Images

Stórliðin Napoli og AC Milan gerðu 2-2 jafntefli í síðasta leik dagsins í ítalsku úrvalsdeildinni. Lokatölur 2-2 og Napoli heldur þar með Evrópudeildarsætinu.

Leikurinn var einkar fjörugur en Theo Hernandez kom gestunum í AC Milan yfir í fyrri hálfleik en Giovanni Di Lorenzo jafnaði metin fyrir heimamenn áður en flautað var til hálfleiks. 

Markamaskínan Dries Mertens kom Napoli yfir þegar sléttur klukkutími var liðinn af leiknum en Franck Kessie jafnaði metin fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu og þar við sat. Þó mörkin hafi ekki orðið fleiri þá nældu gestirnir sér í fjögur gul spjöld áður en flautað var til leiksloka.

Alexis Saelemaekers nældi sér persónulega í tvö slík og fékk þar með að fara í sturtu á undan öllum öðrum á 88. mínútu leiksins en Napoli tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og lauk leiknum því með 2-2 jafntefli.

Það þýðir að Napoli er sem fyrr í 6. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Roma og tveimur stigum á undan AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×