Innlent

Jarðskjálfti á Reykjanesi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samkvæmt Veðurstofunni varð skjálftinn skammt frá Fagradalsfjalli á Reykjanesi.
Samkvæmt Veðurstofunni varð skjálftinn skammt frá Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Loftmyndir

Snarpur jarðskjálfti sem var 5 að stærð varð við Fagradalsfjall á Reykjanesi um klukkan 23:36 í kvöld, samkvæmt fyrstu niðurstöðum á vef Veðurstofunnar. Unnið er að nánari staðsetningu og stærðarútreikngum. 

Skjálftinn fannst vel á Suðurnesjum, víða á höfuðborgarsvæðinu, austur í Landeyjar og upp í Holta- og Landssveit á Suðurlandi, sem og vestur á Akranes, ef marka má færslur á samfélagsmiðlum. 

Veðurstofunni hafa einnig borist óstaðfestar tilkynningar um grjótrhun úr Fagradalsfjalli, en í samtali við Vísi sagði náttúruvársérfræðingur hjá stofnuninni að ein náttúruvá, til dæmis jarðskjálfti, gæti oft leitt til annarrar, til að mynda grjóthruns.

Skjálftinn er skráður 5 að stærð, þrjá kílómetra norður af Fagradalsfjalli, í óyfirförnum frumniðurstöðum sem finna má á vef Veðurstofunnar

Margir minni eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu í kjölfar stóra skjálftans, sá stærsti 3,5 að stærð klukkan 00:08, samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum. Sá skjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, samkvæmt ábendingum sem fréttastofu hafa borist.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að um 700 skjálftar hafi orðið við Fagradalsfjall í dag og viðbúið sé að þeir verði fleiri. Fólk er hvatt til að kynna sér viðbrögð vegna jarðskjálfta sem finna má hér.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×