Innlent

Tveimur hátíðum aflýst meðan nýju reglurnar voru kynntar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ein með öllu hefði átt að fara fram á Akureyri um helgina, þó með breyttu sniði.
Ein með öllu hefði átt að fara fram á Akureyri um helgina, þó með breyttu sniði. Vísir/Vilhelm

Tveimur útihátíðum um verslunarmannahelgina var aflýst á meðan blaðamannafundur stjórnvalda um hertar kórónuveiruaðgerðir stóð yfir. Sæludögum í Vatnaskógi var aflýst klukkan 11:20 og mínútu síðar var Ein með öllu á Akureyri blásin af. 

Skógarmenn KFUM, sem reka sumarbúðir í Vatnaskógi, hafa tekið þá ákvörðun að aflýsa Sæludögum. „Í ár var í undirbúningi hátíð þar sem samkomutakmarkanir yrðu að fullu virtar og búið að gera aðrar ráðstafanir í fullu samræmi til tilmæli Embættis landlæknis,“ segja Skógarmenn í yfirlýsingu og bæta við:

 „Það er aftur á móti mat stjórnar Skógarmanna KFUM að ekki sé lengur forsvaranlegt að halda fyrirhugaða fjölskylduhátíð í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru komnar upp á ný.“ Fólki býðst að fá aðgöngu- og gistikostnað endurgreiddan að fullu.

Svipaða sögu er að segja frá Akureyri. „Í ljósi nýjustu frétta af útbreiðslu Covid-19 faraldursins á Íslandi hefur fjölskylduhátíðinni „Einni með öllu“ á Akureyri og öllum viðburðum sem henni tengjast verið aflýst. Það smit sem komið er upp í samfélaginu og í kjölfarið ný fyrirmæli sóttvarnarlæknis og heilbrigðisyfirvalda útiloka slíkt viðburðahald,“ segir í yfirlýsingu fá aðstandendum.

Þar segjast þeir hafa átt fund með lögreglunni á Akureyri og bæjaryfirvöldum í morgun. Þar hafi verið einhugur um að taka enga áhættu og því einboðið að aflýsa Einni með öllu.


Tengdar fréttir

Hátíðarhöld með breyttu sniði um verslunarmannahelgi

Hátíðarhöld um verslunarmannahelgi verða með breyttu sniði í ár vegna kórónuveirufaraldursins sem nú geisar. Þó verður ýmislegt um að vera um allt land en ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar til að stemma stigu við mögulegum smitum á hverjum stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×