Innlent

Á­höfn TF-SIF kom auga á bát með tæpt tonn af hassi

Atli Ísleifsson skrifar
Frá aðgerðum í Miðjarðarhafi.
Frá aðgerðum í Miðjarðarhafi. Landhelgisgæslan

Spænska lögreglan handtók á dögunum fjóra og gerði 963 kíló af hassi upptæk eftir að áhöfn TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar, kom auga á hraðbát með torkennilegan varning um borð við landamæraeftirlit á vestanverðu Miðjarðarhafi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, en TF-SIF hefur undanfarnar vikur sinnt landamæraeftirliti í Miðjarðarhafi á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu.

Í tilkynningunni segir að höfuðstöðvum spænsku lögreglunnar í Madrid hafi þá verið gert viðvart og á meðan fylgdi TF-SIF bátnum eftir inn á Gíbraltarsund í ríflega tvo tíma.

Landhelgisgæslan

„Þar mætti spænska lögreglan á hraðbát og handtók fjóra smyglara og gerði tæpt tonn af hassi upptækt.

Samkvæmt fréttatilkynningu spænsku lögreglunnar voru smyglararnir frá Marokkó, Belgíu og Frakklandi.

Áhöfnin á TF-SIF hefur frá júnímánuði haft aðsetur á Malaga á Spáni og sinnt landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi á Frontex.“

Um borð í TF-SIF.Landhelgisgæslan

Ennfremur segir að áhöfnin hafi tekið þátt í 41 verkefni og „stuðlað að björgun 78 flóttamanna og komið upp um fjölmarga smyglara sem reynt hafa að flytja fíkniefni til meginlands Evrópu“.

TF-SIF lagði af stað til Íslands frá Spáni í dag og er væntanleg til landsins síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×