Innlent

„Bernsku­brek full­orðinna“ skýrir arnar­hvarf á Egils­stöðum

Atli Ísleifsson skrifar
Listamaður Arnarins er Grétar Reynisson. Örninn hefur staðið undanfarin þrjú ár við Fagradalsbraut á Egilsstöðum.
Listamaður Arnarins er Grétar Reynisson. Örninn hefur staðið undanfarin þrjú ár við Fagradalsbraut á Egilsstöðum. Fljótsdalshérað.

Tréörninn sem hvarf úr miðbæ Egilsstaða fyrr í mánuðinum er kominn í leitirnar.

Lögreglan á Austurlandi greinir frá þessu en verkið, sem ber heitið „Örninn“ var stolið að morgni 4. ágúst síðastliðinn.

Í tilkynningu segir að eftirgrennslan lögreglu hafi leitt í ljóst að erninum hafi verið „skilað“ þremur dögum síðar.

„Hann fannst þá við þjóðveg 1, við hringtorg á Kirkjubæjarklaustri. Hann er nú í vörslu lögreglunnar á Suðurlandi og bíður heimferðar. Skemmdir urðu við þjófnaðinn á stöpli er örninn sat á en verkið sjálft er talið óskemmt.

Líkur benda til að þarna hafi verið um bernskubrek fullorðinna að ræða. Málið er í rannsókn,“ segir í tilkynningu.

Örninn er 70 sentimetrar á hæð og 50 kíló á þyngd. Listamaður verksins er Grétar Reynisson og hefur örninn staðið undanfarin þrjú ár við Fagradalsbraut á Egilsstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×