Viðskipti erlent

Epic í mál við Apple vegna Fortnite

Samúel Karl Ólason skrifar
Fortnite er gífurlega vinsæll leikur.
Fortnite er gífurlega vinsæll leikur. Getty/Metin Aktas

Leikjaframleiðandinn Epic hefur höfðað mál gegn Apple eftir að hinn gífurlega vinsæli leikur Fortnite var fjarlægður úr App Store, forritaverslun Apple. Tim Sweeney, forstjóri Epic, hefur lengi kvartað yfir því að Apple og Google taki of stóran hluta tekna framleiðanda í gegnum forritaverslanir tæknifyrirtækjanna.

Deila fyrirtækjanna stigmagnaðist í kvöld þegar Apple fjarlægði Fortnite eftir að Epic reyndi að komast hjá innra greiðslukerfi Apple.

Í yfirlýsingu frá Apple til tæknimiðilsins Verge segir að Epic hafi vísvitandi reynt að brjóta gegn skilmálum Apple og því hafi leikurinn verið fjarlægður. Þar segir einnig að Epic hafi verið með forrit í App Store um árabil og fyrirtækið hafi hagnast verulega á því. Epic hafi samþykkt skilmálana og að breyttar aðstæður fyrirtækisins breyti því ekki að skilmálarnir nái yfir alla sem eigi forrit í versluninni.

Apple tekur 30 prósent af öllum tekjum sem fyrirtæki öðlast í gegnum App Store. Epic bætti sérstöku kerfi við Fortnite svo allar tekjur færu ekki lengur í gegnum forritaverslunina.

Epic gerði það sama í Android-útgáfu Fortnite en Google hefur ekki brugðist við enn.

Tímasetningin er ekki góð fyrir Apple, og mögulega Google, þar sem yfirvöld í Bandaríkjunum eru að skoða hvort að stóru tæknifyrirtækin þar beiti markaðsráðandi stöðu sinni til að hefta samkeppni.

Epic birti þetta myndband í dag, þar sem fyrirtækið setur út á Apple og kallar eftir samstöðu gegn risanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×