Erlent

Stormur hjálpar við slökkvistarf en eldingar auka hættu á frekari eldum

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmaður slekkur í eldi sem var kveiktur til að stöðva stærri kjarrelda nærri Tomerong í Ástralíu.
Slökkviliðsmaður slekkur í eldi sem var kveiktur til að stöðva stærri kjarrelda nærri Tomerong í Ástralíu. AP/Rick Rycroft

Slökkviliðsmenn í Ástralíu nýta sér nú úrkomu sem fylgir þrumuveðri sem gengur yfir austurhluta landsins til þess að styrkja varnarlínur í kringum fleiri en 110 kjarrelda sem þeir hafa glímt við undanfarið. Hætta er þó til staðar að eldingarnar kveiki fleiri elda og von er á að hættulegar aðstæður fyrir elda skapist fljótt á ný.

Óvenjuleg hlýindi og þurrkur hafa skapað kjöraðstæður fyrir eldana sem hafa geisað í Ástralíu frá því í september. Veðurfræðingar gera ráð fyrir að eftir að storminum sloti bæti aftur í hita og vind. Þá er hætta á að eldingarnar kveiki fleiri elda.

Shane Fitzsimmons, slökkviliðsstjóri í Nýja Suður-Wales, segir við AP-fréttastofuna að glæður eftir eldingar geti brunnið hægt í trjám og rótum í nokkra daga og komið fram þegar aðstæður verða þurrari og heitari. Um 2.3000 slökkviliðsmenn sem eru nú að störfum í ríkinu muni huga sérstaklega að því næstu daga.

Alls hafa nú 26 manns látið lífið af völdum kjarreldanna frá því í september. Á föstudag fórst 43 ára gamall slökkviliðsmaður í Viktoríu þegar bifreið hans lenti í óhappi þegar hann tók þátt í slökkvistarfi. Um 2.000 heimili hafa jafnframt orðið eldunum að bráð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×