Skoðun

Já, við vitum af þessu!

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar

Í greininni Vita Garðbæingar af þessu?, sem birtist á vef Sjálfstæðismanna í okkar góða nágrannasveitarfélagi Kópavogi, er borin saman skuldastaða bæjarfélaganna og hvernig framsetningu rekstrarafkomu sveitarfélaga getur verið háttað.

Greinahöfundur er Jón Finnbogason varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og fyrrverandi íbúi í Garðabæ. Í grein hans koma fram ýmsar staðreyndir sem staðfesta varnaðarorð okkar í Garðabæjarlistanum við afgreiðslu síðustu fjárhagsáætlunar. Skuldasöfnun á hvern íbúa hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, þvert á hástemmdar og árlegar yfirlýsingar meirihlutans um afburða afkomu sveitarfélagsins.

Við vöruðum við því augljósa hættumerki að afgangur sveitarsjóðs fer hraðminnkandi á sama tíma og afar fjárfrek mannvirkjaframkvæmd er á byrjunarstigi; framkvæmd sem byggir á mikilli óvissu í fjármögnun. Sú framkvæmd við byggingu fjölnota íþróttahúss kallar á mikla lántöku á árinu, á sama tíma og bundnar eru vonir við hraða lóðasölu í Vetrarmýrinni. Þar ræður óskhyggjan för hjá félögum okkar í meirihlutanum.

Skuldasöfnun, samdráttur, lántökur og óskhyggja er það sem meirihlutinn í bæjarstjórn Garðarbæjar kýs að klæða í nýju fötin keisarans og nefna „ábyrga fjármálastjórn“. Í grein Jóns nágranna okkar kemur fram að árið 2012 voru skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa í Kópavogi 1.408 þúsund kr. en á sama tíma 578 þúsund kr. í Garðabæ. Við árslok 2018 var sama tala í Kópavogi 1.212 þúsund kr. á hvern íbúa, en 872 þúsund kr. í Garðabæ. Skuldir á hvern íbúa höfðu því lækkað í Kópavogi um 14% en hækkað á hvern íbúa í Garðabæ um 51%. 

Skuldasöfnun á hvern íbúa í Garðabæ eykst hratt á sama tíma og kólnun á sér stað í hagkerfinu. Garðabær hefur reyndar vinninginn umfram Kópavog að því er fasteignaskatta varðar, því þar hafa nágrannar okkar verið iðnari við hækkanir undanfarið. Það vegur þó lítið á móti hækkun útsvars. Í Kópavogi hækkaði útsvarið á hvern bæjarbúa frá 2012 til 2018 úr 393 þúsund kr. í 583 þúsund kr., sem er 48,6% hækkun. Í Garðabæ hækkaði útsvar á hvern bæjarbúa úr 405 þúsund kr. í 613 þúsund kr. eða um 51,5%. Það er varla neitt keppikefli að sigra í slíkum samanburði!

Í samfélagi, þar sem meirihlutinn trúir því að svart sé hvítt, skuldir séu eignir og keisarinn sé í raun kappklæddur þá er ekki líklegt að þróuninni verði snúið við. Garðbæingar geta átt von á áframhaldandi hækkun útsvars, ef svo fer sem horfir.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×