Enski boltinn

Guðsonur Guðna Bergs lék með Liverpool í sigrinum á Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðsonurinn og guðfaðirinn. Báðir miðverðir.
Guðsonurinn og guðfaðirinn. Báðir miðverðir. vísir/getty

Nathaniel Phillips lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool í 1-0 sigrinum á Everton í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.

Hinn 22 ára Phillips lék allan leikinn í miðri vörn Liverpool við hlið Joe Gomez.

Phillips hefur skemmtilega tengingu við Ísland en hann er guðsonur Guðna Bergssonar, formanns KSÍ.

Guðni lék með föður Phillips, Jimmy Phillips, hjá Bolton Wanderers á árunum 1995-2001.

Jimmy Phillips lék með Bolton á árunum 1993-2001 og undanfarin ár hefur hann verið yfirmaður unglingastarfs félagsins.

Þar þjálfaði hann m.a. son sinn. Nathaniel Phillips fór svo til Liverpool 2016 og byrjaði að æfa með aðalliði félagsins tveimur árum seinna.

Fyrir þetta tímabil var Phillips lánaður til Stuttgart í þýsku B-deildinni. Hann lék ellefu leiki með liðinu áður en hann var kallaður til baka til Liverpool vegna meiðsla varnarmanna liðsins.

Guðni lék með Bolton á árunum 1995-2003 og er í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins. Hann lék 270 deildarleiki fyrir Bolton og skoraði 22 mörk. Á tíma Guðna hjá Bolton vann liðið sér tvívegis sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Jimmy Phillips, faðir Nathaniel Phillips.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×