Erlent

Tyrkir senda herlið til Líbíu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/Getty

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir tyrkneskt herlið haldið af stað til Líbíu. Markmið þeirra er að veita sitjandi ríkisstjórn Líbíu stuðning í baráttu sinni við uppreisnarhópa.

Tyrkneska þingið samþykkti í síðustu viku að senda herlið á vegum ríkisins til Líbíu. Sveitum Tyrkja er ætlað að veita ríkisstjórn Líbíu, sem studd er af Sameinuðu þjóðunum, stuðning í baráttu gegn uppreisnarhópum, en borgarastyrjöld hefur geisað í Líbíu frá því að einræðisherranum Muammar Gaddafi var steypt af stóli, og hann myrtur, árið 2011.

Líbísk stjórnvöld hafa að undanförnu staðið í átökum við uppreisnarhópa á vegum hershöfðingjans Khalifa Haftar, en sveitir hans hafa aðsetur í austurhluta landsins, líkt og hann sjálfur.

Haftar nýtur stuðnings Egyptalands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, en ríkisstjórn Líbíu hefur Tyrki og Katara á bak við sig.

Að undanförnu hafa uppreisnarmenn reynt að ná höfuðborginni Trípólí á sitt vald, en síðast í gær var gerð loftárás á herskóla í borginni, þar sem tugir féllu. Talið er að uppreisnarsveitir Haftar hafi staðið á bak við þá árás, en þær neita þó sök.

Stjórnvöld í Ísrael, Grikklandi og á Kýpur hafa öll lagst gegn þátttöku Tyrkja í aðgerðum í Líbíu. Þau segja að hernaðarbrölt Tyrkja gæti dregið úr stöðugleika á svæðinu, og að það væri mögulega í trássi við hernaðarbann Sameinuðu þjóðanna.

Tyrknesk stjórnvöld hafa ekkert gefið upp um umfang þess stuðnings sem ríkið hyggst veita líbískum stjórnvöldum í baráttu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×