Erlent

Hillir undir nýja ríkisstjórn á Spáni

Kjartan Kjartansson skrifar
Pablo Iglesias, leiðtogi Við getum, og Pedro Sánchez, leiðtogi Sósíalistaflokksins, virðast ætla að leiða nýja ríkisstjórn á Spáni.
Pablo Iglesias, leiðtogi Við getum, og Pedro Sánchez, leiðtogi Sósíalistaflokksins, virðast ætla að leiða nýja ríkisstjórn á Spáni. Vísir/EPA

Katalónskir sjálfstæðissinnar á Spánarþingi hafa samþykkt að greiða götu nýrrar ríkisstjórnar með því að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um samsteypustjórn Sósíalistaflokksins og vinstriflokksins Við getum. Stjórnarkreppa hefur ríkt á Spáni undanfarið ár.

Sósíalistaflokkurinn vann flest þingsæti í kosningum sem fóru fram í nóvember án þess þó að ná hreinum meirihluta. Þeir náðu fljótt samkomulagi við Við getum um ríkisstjórnarsamstarf en slík stjórn er með minnihluta þingsæta og þarf að reiða sig á stuðning minni flokka.

Vinstri lýðveldissinnar Katalóníu (ERC) er með þrettán sæti á þingi. Breska ríkisútvarpið BBC segir að með hlutleysi hans og stuðningi annarra vinstriflokka eða baskneskra flokka gæti stjórn Sánchez komist á koppinn.

Búist er við því að atkvæði um traust á slíkri ríkisstjórn verði greidd á þingi um helgina og á þriðjudag. Talið er að Sánchez tapi þeirri fyrri þar sem hann þarf stuðning hreins meirihluta þingsins. Í þeirri síðari gæti hann haldið velli þar sem þá þarf aðeins einfaldan meirihluta þingmanna.

Að baki vilyrði katalónsku sjálfstæðissinnanna um að verja stjórn Sánchez falli býr loforð sósíalista um að samningaviðræður við katalónsku héraðsstjórnina til að greiða úr pólitískum ágreiningi um framtíð héraðsins. Þær gætu leitt af sér þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hluti af pólitískum óróa sem hefur ríkt á Spáni undanfarin ár var tilkominn vegna sjálfstæðistilburða katalónsku héraðsstjórnarinnar. Hún hélt meðal annars þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði í trássi við vilja landsstjórnarinnar og lýsti yfir sjálfstæði í kjölfarið. Nokkrir leiðtogar sjálfstæðissinna hlutu þunga fangelsisdóma fyrir aðild sína að þeim aðgerðum í fyrra.


Tengdar fréttir

Sameinast um að mynda stjórn

Sósíalistaflokkurinn og Podemos hafa náð samkomulagi um að mynda ríkisstjórn á Spáni. Eftir kosningarnar sem fram fóru sunnudaginn 10. nóvember vantar þá þó enn um 20 þingmenn til að ná meirihluta á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×