Enski boltinn

Liverpool endurtók afrek Eiðs Smára og félaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané, Eiður Smári Guðjohnsen og Patrick Vieira hafa allir leikið heilt ár með liðum sínum í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa.
Sadio Mané, Eiður Smári Guðjohnsen og Patrick Vieira hafa allir leikið heilt ár með liðum sínum í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa. Samsett/Getty

3. janúar 2019. Í dag er liðið nákvæmlega eitt ár frá því að Liverpool tapaði síðast leik í ensku úrvalsdeildinni. Það gerist ekki á hverjum degi að lið fer í gegn 365 daga í þessari erfiðu deild án þess að tapa leik því Liverpool er aðeins þriðja liðið sem afrekar slíkt.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er þar kominn í hóp með þeim Arsene Wenger og Jose Mourinho.

Liverpool lék í gærkvöldi 37. deildarleikinn í röð án þess að tapa en liðið hefur náð í 58 af 60 stigum í boði á þessu tímabili.

Tapið á móti Manchester City var á Ethiad leikvanginum 3. janúar í fyrra en City vann leikinn 2-1 þökk sé mörkum frá Sergio Agüero og Leroy Sané. Roberto Firmino hafði jafnaði metin á 64. mínútu en Sané skoraði sigurmarkið átta mínútum síðar.



Eiður Smári Guðjohnsen var í síðasta liðinu sem afrekaði það að spila heilt ár í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa leik. Eiður Smári og félagar í Chelsea léku 40 deildarleiki í röð án þess að tapa frá október 2004 til nóvember 2005. Knattspyrnustjóri liðsins þá var Portúgalinn Jose Mourinho.

Chelsea þurfti á endanum að sætta sig við tap á móti Manchester United 6. nóvember 2005 en United vann 1-0 á Old Trafford þökk sé sigurmarki Darren Fletcher á 31. mínútu. Chelsea hafði þá ekki tapað leik síðan liðið lá 1-0 á móti Manchester City á útivelli 16. október 2004. Nicolas Anelka skoraði þá sigurmark City úr vítaspyrnu á 11. mínútu.

Fyrsta liðið til að spila heilt ár án þess að tapa eru methafarnir í Arsenal. Arsenal liðið frá 2003-04 er eina liðið sem lék heilt tímabil í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa. Tímabili 2003-04 spilaði Arsemal 38 leiki, fagnaði sigri í 26 þeirra og gerði 12 jafntefli.

Arsenal lék alls 49 deildarleiki í röð án þess að tapa sem er ekki aðeins met í ensku úrvalsdeildinni heldur einnig í efstu deild á Englandi. Gamla metið var frá því þegar Nottinghan Forrest lék 42 leiki í röð án þess að tapa undir stjórn Brian Clough undir lok áttunda áratugsins.

Arsenal þurfti á endanum að sætta sig við tap á móti Manchester United á Old Trafford 24. október 2004 þökk sé mörkum frá Ruud van Nistelrooy og Wayne Rooney. Arsenal hafði þá ekki tapað leik síðan liðið lá 3-2 á móti Leeds United á Highbury 4. maí 2003. Ástralinn Mark Viduka skoraði þá sigurmarkið á 88. mínútu en Arsenal hafði tvisvar jafnað metin í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×