Enski boltinn

Ósáttur við brosið hans Solskjær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær verður að passa sig hvenær hann brosir og hvenær ekki.
Ole Gunnar Solskjær verður að passa sig hvenær hann brosir og hvenær ekki. EPA-EFE/RICHARD WAINWRIGHT

Robin van Persie lék með síðasta liði Manchester United sem varð enskur meistari vorið 2013. Hann var ekki sáttur með knattspyrnustjórann eftir leik Arsenal og Manchester United í gær.

Arsenal vann leikinn 2-0 og fyrir vikið mistókst Manchester United liðinu að komast tveimur stigum frá Chelsea í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Ole Gunnar Solskjær er þekktur fyrir að vera viðkunnanlegur í sjónvarpsviðtölum og skiptir þar ekki máli hvort liðið hans vinnur eða tapar.

Van Persie var hins vegar ósáttur með það að norski stjórinn leyfði sér að brosa í sjónvarpsviðtalinu eftir tapið á Emirates í gær.



„Vertu bara reiður. Það pirrar mig að sjá hann brosa eftir svona leik. Þetta var ekki tímapunkturinn fyrir hann til að brosa,“ sagði Robin van Persie á BT Sport eftir leikinn.

Manchester United liðið er í 5. sæti deildarinnar með 31 stig í 21 leik. Liðið er 24 stigum á eftir toppliði Liverpool og Liverpool á líka tvo leiki til góða.

United var búið að vinna tvo deildarleiki í röð en tókst ekki að vinna þrjá deildarleiki í röð í fyrsta sinn á tímabilinu. Liðið var líka í þeirri stöðu á móti Everton á útivelli 15. desember síðastliðinn en gerði þá 1-1 jafntefli.

Van Persie varð markakóngur deildarinnar þegar Manchester United vann titilinn síðast 2013 en þá var Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri liðsins.

Robin van Persie skoraði 26 mörk það tímabil eða þremur mörkum meira en næsti maður sem var Luis Suárez hjá Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×