Enski boltinn

Segir söluna á Coutinho vera aðalástæðuna fyrir mikilli velgengi Liverpool í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho fagnar einu af mörkum sínum fyrir Liverpool. Hann var almennt talinn vera besti leikmaður liðsins þegar hann var seldur.
Philippe Coutinho fagnar einu af mörkum sínum fyrir Liverpool. Hann var almennt talinn vera besti leikmaður liðsins þegar hann var seldur. Getty/Jan Kruger

Graeme Souness, fyrrum fyrirliði og knattspyrnustjóri Liverpool, telur að Liverpool hafi lagt grunninn að velgengni sinni síðustu mánuði með því að selja Philippe Coutinho fyrir 142 milljónir punda í janúar fyrir tveimur árum síðan.

Liverpool seldi Philippe Coutinho til Barcelona fyrir 24 mánuðum síðan en nokkrum árum fyrr hafði félagið einnig selt stórstjörnuna sína til Barcelona þegar Úrúgvæmaðurinn Luis Suárez fór sömu leið.

Á þessum tíma var Liverpool vissulega með gott lið en hafði ekki tekist að komast á toppinn. Liðið rétt missti reyndar af Englandsmeistaratitlinum með Luis Suárez en tókst ekki að fylgja því tímabili eftir.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, hefur hins vegar tekist að koma Liverpool á toppinn á síðustu mánuðum þrátt fyrir að hafa misst sinn besta leikmann í janúar 2018. Peningarnir sem Liverpool fékk fyrir Brasilíumanninn hafa hjálpað þar til og Graeme Souness er á því að þeir séu aðalástæðan fyrir velgengi Liverpool í dag.



„Kannski finnst þeim hlutlausu að það hafi verið skemmtilegra að horfa á þá fyrir nokkrum árum en þeir tóku ekki alvöru stökkið sitt fyrr en þeir náðu í Van Dijk og Alisson,“ sagði Graeme Souness.

Varnarleikur Liverpool var mikið vandamál fyrir kaupin á þessum tveimur köppum. Liðið skoraði nóg af mörkum til að vinna titla en þurfti oft þrjá eða fjögur mörk til að vinna sína leiki.

Liverpool keypti Virgil van Dijk frá Southampton fyrir 70 milljónir punda í janúar 2018 og Alisson frá Roma fyrir 55,5 milljónir punda í júlí 2018. Samtals kostuðu þessir tveir því 125,5 milljónir punda.

Roberto Firmino, Mohamed Salah og Sadio Mané sáu síðan til þess í sameiningu að enginn saknað markanna hans Philippe Coutinho.

Varnarleikurinn hefur verið miklu betri með þá Virgil van Dijk og Alisson og nú sér Liverpool langþráðan Englandsmeistaratitil í hyllingum.

Liðið er með tíu stiga forystu á Leicester City og ellefu stiga forystu á Manchester City en á líka tvo leiki inni á bæði þessi lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×