Erlent

Átján látnir vegna gróðureldanna

Sylvía Hall skrifar
Neyðarviðvaranir eru í gildi víða um landið.
Neyðarviðvaranir eru í gildi víða um landið. Vísir/EPA

Sjö hafa látist síðan á mánudag í Nýju Suður-Wales í Ástralíu og nokkurra er enn saknað vegna gróðureldanna miklu sem geisa á austurströnd landsins. Á meðal hinna látnu eru faðir og sonur sem urðu eftir á heimili sínu til þess að reyna að bjarga heimili sínu, tvennt sem fannst látið í bílum á miðvikudagsmorgun og slökkviliðsmaður sem lést eftir að vindhviða velti slökkviliðsbíl hans.

Alls hafa því átján látist vegna gróðureldanna í landinu en óttast er að sú tala fari hækkandi. Viðbragðsaðilar hafa ekki getað komist að sumum svæðum þar sem gróðureldarnir geisa og þurftu lögreglumenn meðal annars að koma vatnsbirgðum og sjúkravörum til íbúa Mallacoota í Viktoríuríki sjóleiðis á þriðjudag þar sem lokað var fyrir umferðargötur til og frá bænum.

Þó ástandið sé enn alvarlegt voru aðstæður ögn betri í dag og var hægt að opna fyrir umferð um veg í Viktoríuríki í tvær klukkustundir svo fólk gæti yfirgefið svæðið. Þá voru íbúar í bænum Sunbury hvattir til þess að yfirgefa svæðið þar sem neyðarviðvörun vegna gróðureldanna væri í gildi.

Búist er við því að hitastig hækki aftur á laugardag en undanfarna daga hefur hiti farið yfir fjörutíu stig í öllum ríkjum landsins. Margir vegir eru lokaðir og ekki hefur verið hægt að komast að sumum svæðum með flugi vegna eldanna.

Í Sydney höfðu 250.000 skrifað undir áskorun um að hætt verði við flugeldasýningar á gamlárskvöld og fjármunirnir verði frekar nýttir til að berjast við eldana. Flugeldasýningar fóru þó fram um áramótin og sagði Clover Moore, borgarstjóri Sydney, að sýningin gæfi fólki von. Fjölmörgum flugeldasýningum um landið var þó aflýst vegna eldanna. 


Tengdar fréttir

Ára­móta­flug­eldar sprengdir í S­yd­n­ey þrátt fyrir skógar­elda

Flugeldasýning mun fara fram í Sydney á áramótunum þrátt fyrir neyðarástand vegna skógarelda í landinu. Forsætisráðherrann, Scott Morrison, segir það sýni heiminum hve staðföst Ástralía sé en á sama tíma hófu yfirvöld undirbúning fyrir versnandi aðstæður vegna mikils hita.

Sjötíu nýir gróðureldar í Ástralíu

Hiti fór yfir fjörutíu stig í öllum ríkjum Ástralíu í dag. Verst er ástandið í Viktoríu-ríki þar sem sjötíu nýir gróðureldar hafa kviknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×