Innlent

„Ekki okkar reynd að þetta sé svona erfitt eins og blásið er upp“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigrun Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Urðarhóls.
Sigrun Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Urðarhóls. Vísir/Friðrik/Vilhelm

Leikskólastjóri í Kópavogi segir það lýðheilsumál að stytta viðveru barna í leikskólum. Flest börn dvelji þar átta og hálfan tíma í miklu áreiti sem sé of langur tími fyrir lítil börn. Hann segir styttingu opnunartíma leikskóla í bænum hafa gefist vel.

Reykjavíkurborg áformar að stytta opnunartíma leikskóla í borginni um hálftíma og loka klukkan hálf fimm í stað fimm. Þessi breyting hefur vakið upp hörð viðbrögð hjá mörgum sem segja þetta koma illa foreldra. Fleiri sveitarfélög hafa farið þessa leið þar á meðal Kópavogsbær. 

„Það vantar um allavega þrettán til fimmtán hundruð leikskólakennara til að uppfylla lög um leikskóla. Þannig að með þessu þá þjöppum við fagmenntuninni á opnunartíma leikskólans. Oft var þetta þannig að við vorum með sem sagt ungt starfsfólk sem að var að koma á skilavaktir. Þannig að þau voru ekki með samhengið yfir daginn og hvernig barninu var búið að líða. Þessi breyting að loka klukkan hálf fimm, þá erum við með kennara deildanna þangað til barnið fer heim, það er stór kostur fyrir barnið,“ segir Sigrún Hulda Jónsdóttir leikskólastjóri heilsuleikskólans Urðarhóls í Kópavogi. 

Sigrún segir að aðeins foreldrar tveggja barna af þeim 130 sem eru á leikskólanum hafi átt erfitt með að bregðast við breyttum opnunartíma. 

„Það er ekki okkar reynd að þetta sé svona erfitt eins og blásið er upp,“ segir Sigrún.

Hún segir mikilvægt að reyna að draga úr mikilli viðveru barna á leikskólum. 

„Það eru allflest börn sem eru í leikskólanum svona átta og hálfan tíma og ég held bara að þetta sé svolítið lýðheilsumál að við förum aðeins að stytta vinnutíma barna utan heimilis. Ég vil nefna að þetta sé vinnutími barna því að barnið kemur í leikskóla. Það er að læra allan daginn og það er í miklu áreiti og það verður bara þreytt. Þannig að átta og hálfur tími fyrir eins og hálfs árs gamalt barn til fimm ára það er bara of langur skóladagur,“ segir Sigrún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×