Fyrsta formlega skrefið í réttarhöldum öldungadeildar Bandaríkjaþings yfir Donald Trump forseta vegna mögulegra embættisbrota hans var stigið í gær þegar hundrað þingmenn deildarinnar sóru eið sem kviðdómendur. Réttarhöldin eiga að hefjast á þriðjudag í næstu viku.
John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna bað þingmennina um að sverja eiðinn og að „framfylgja réttlætinu á óhlutdrægan hátt“. Að svo búnu frestaði Mitch McConnell, leiðtogi öldungadeildarinnar og repúblikana, fundi um undirbúning réttarhaldanna og sagði að þau hæfust klukkan 13:00 að íslenskum tíma þriðjudaginn 21. janúar.
Fulltrúadeild þingsins kærði Trump forseta fyrir embættisbrot í tveimur liðum, annars vegar fyrir að misnota vald sitt þegar hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan keppinaut hans og hins vegar fyrir að hindra rannsókn þingsins á því.
Trump brást reiður við á Twitter í gær og tísti í hástöfum um að hann hefði verið „KÆRÐUR FYRIR FULLKOMIÐ SÍMTAL“. Vísaði forsetinn þar til símtals hans og Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, í júlí. Trump hefur ítrekað fullyrt að símtalið hafi verið „fullkomið“ þrátt fyrir að minnisblað sem Hvíta húsið birti sjálft um efni þess hafi sýnt að Trump þrýsti ítrekað á Zelenskíj að rannsaka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegan mótherja Trump í kosningum í haust, og stoðlausa samsæriskenningu um kosningarnar árið 2016.
I JUST GOT IMPEACHED FOR MAKING A PERFECT PHONE CALL!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 16, 2020
Afar ósennilegt þykir að Trump verði sakfelldur og vikið úr embætti í öldungadeildinni. Aukinn meirihluta þingmanna þarf til að sakfella forseta en Repúblikanaflokkur Trump er með meirihluta í deildinni, 53 sæti gegn 47 sætum demókrata.
Leiðtogar repúblikana, þar á meðal McConnell, hafa gefið í skyn að þeir ætli að afgreiða réttarhöldin hratt og sýkna forsetann. McConnell sagði meðal annars í aðdraganda þeirra að hann ætlaði að vinna náið með Hvíta húsinu að réttarhöldunum þrátt fyrir að þingmenn eigi að koma fram sem óhlutdrægir kviðdómendur.
Demókratar hafa á sama tíma krafist þess að öldungadeildin leiði fram ný vitni og hlýði á ný sönnunargögn í málinu, þar á meðal frá embættismönnum sem Trump og Hvíta húsið hafa komið í veg fyrir að beri vitni.