Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kölluð að sveitabæ í Rangárvallasýslu í gær þar sem skot hafði hlaupið úr kindabyssu og hæft framhandlegg manns sem var að aðstoða þann sem hélt á byssunni við að aflífa kind.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi mun kúlan hafa setið eftir í handleggnum og var maðurinn fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Reykjavík.
Í tilkynningu lögreglu er einnig sagt frá árekstri sem varð í gær við hringtorgið þar Klausturvegur á Kirkjubæjarklaustri tengist Suðurlandsvegi og fjallað var um á Vísi.
Þar lentu saman lögreglubíll sem ekið var af Klausturvegi á Kirkjubæjarklaustri og jeppi sem ekið var vestur Suðurlandsveg og öfugu megin inn í hringtorgið.
„Svo virðist sem ökumaður jeppabifreiðarinnar, sem er erlendur ferðamaður, hafi misst stjórn á bifreið sinni þegar hann nálgaðist hringtorgið og lent öfugu megin við umferðareyju sem skilur að akstursstefnur og síðan beint framan á lögreglubifreiðina.
Lögreglumaðurinn, sem var einn á ferð, var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús en útskrifaður þaðan í gærkvöldi og talinn óbrotinn en töluvert marinn. Ökumaður og farþegi jeppabifreiðarinnar sluppu ómeidd,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
