Erlent

Annar slökkvi­liðs­maður lést í bar­áttunni við gróður­elda í Ástralíu

Eiður Þór Árnason skrifar
3000 hermenn voru sendir á vettvang til þess að aðstoða við slökkvistarf fyrr í mánuðinum.
3000 hermenn voru sendir á vettvang til þess að aðstoða við slökkvistarf fyrr í mánuðinum. Getty/Andrew Merry

Slökkviliðsmaður lést þegar tré féll á hann í Ástralíu í gær á meðan hann barðist við gróðurelda hjá bænum Omeo í Viktoríuríki. Bill Slade vann að því að hamla útbreiðslu eldanna við hlið fjölda sjálfboðaliða í suðausturhluta Ástralíu.

Hann var sextíu ára gamall og var heiðraður fyrir fjörtíu ára starf í þágu skógræktar þar í landi í nóvember síðastliðnum.

Minnst 27 hafa nú látist í langvarandi gróðureldum í Ástralíu og hafa yfir tvö þúsund heimili orðið eldunum að bráð. Fjórir slökkviliðsmenn eru á meðal þeirra látnu.

Gróðureldarnir í Ástralíu halda áfram að valda stórtjóni og búist er við því að þeir muni loga næstu mánuðina. Óvenjuleg hlýindi og þurrkur hafa skapað kjöraðstæður fyrir eldana sem hafa geisað í Ástralíu frá því í september.

Þúsundir hafa þurft að flýja Nýju Suður-Wales undanfarið og hafa loftgæði víða verið með versta móti vegna eldanna.

Sjá einnig: Vinkonan þurfti að flýja með barnið í rennblautum burðarpoka

Elísa Gyrðisdóttir, íslensk kona sem bjó lengi í Ástralíu, sagði ástandið í landinu vera alvarlegra en marga grunar í samtali við Vísi síðastliðinn þriðjudag.

„Fjölskylduvinir okkar og þau í Ástralíu eru úti allan daginn að vökva húsið sitt, sem við þurftum alveg að gera líka þegar við bjuggum þarna og það var kannski bruni í næstu götu og maður var tilbúinn. Þetta er samt miklu meira, það hefur aldrei verið svona mikill eldur þarna. Þau vita bara ekkert hvað þau eiga að gera.“


Tengdar fréttir

Prjóna fyrir móðurlaus dýr

Hópur fólks ætlar að bregðast við ákalli dýraverndunarsamtaka í Ástralíu og hittast á Kex Hosteli í Reykjavík í kvöld og prjóna poka fyrir dýr sem eru móðurlaus eftir gróðureldana í Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×