Innlent

„Þarna verða allir kvaddir til sem vettlingi geta valdið“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá fjölmennum íbúafundi í Grindavík í gær þar sem viðruð var sú hugmynd að stofna varalið í bænum.
Frá fjölmennum íbúafundi í Grindavík í gær þar sem viðruð var sú hugmynd að stofna varalið í bænum. vísir/egill

Sú hugmynd kom fram á íbúafundinum í Grindavík í gær að stofna sérstakt varalið í bænum sem gæti aðstoðað björgunarsveitarmenn við rýmingu og annað viðbragð ef til eldgoss kemur á því svæði þar sem óvenjulegt landris er vestan við fjallið á Þorbjörn.

Slysavarnafélagið Landsbjörg skoðar það nú með almannavörnum hvernig hægt væri að nýta slíkt lið sem best og hvernig skipulagi væri háttað.

Guðbrandur Örn Arnarson hjá Landsbjörg segir málið snúast um það að fyrsta viðbragð verði alltaf heimamenn.

„Sérstaklega líka, sama í hvaða nágrenni þú ert þá tekur alltaf að minnsta kosti 20 til 30 mínútur að komast á staðinn. Við erum búin að ræða þessi mál ég og formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík. Björgunarsveitin fagnar þessu mikið og þetta er bara hið besta mál. Það þarf bara að gefa okkur aðeins tíma til að vinna þetta og þetta snýst náttúrulega um það að þetta er bakland sem hægt er að sækja í. Þarna verða allir kvaddir til sem vettlingi geta valdið, sama hversu lítið verkefni er,“ segir Guðbrandur.

Sjá einnig: Fimm þúsund manns á hættusvæði ef gossprunga opnast við Svartsengi

„Þessu var hent fram í gær og þetta er fín pæling. Við erum að meta það hvernig við getum nýtt þetta best og erum að byrja í viðræðum við almannavarnir um það hvort við getum nýtt þetta eða hvernig þetta myndi nýtast. Hvað væri best. Það má heldur ekki vera þannig að við stofnum eitthvað varalið en það verði svo margir að það kemst enginn fram hjá því,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, léttur í bragði, en bætir við að það þurfi að hugsa þetta vel.

Hann segir það síðan ekki á forræði hans að ákveða að virkja slíkt lið heldur yrði það líklegast lögreglan sem tæki ákvörðun um það ásamt almannavörnum.

Bogi segir allt til skoðunar í tengslum við mögulegt viðbragð á svæðinu og það besta við þetta allt saman sé kannski að viðbragðsaðilar hafi tíma.

„Svo kannski skeður ekki neitt en þá erum við komnir með góða beinagrind til að vinna með í öllu,“ segir Bogi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×