Innlent

Jarð­skjálfti að stærð 2,4 við Grinda­vík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rólegt hefur verið í kringum Þorbjörn í nótt.
Rólegt hefur verið í kringum Þorbjörn í nótt. Vísir/birgir

Jarðskjálfti að stærð 2,4 varð um fjóra kílómetra norðvestur af Grindavík rétt eftir klukkan sjö í morgun. GPS-mælingar það sem af er degi sýna áframhaldandi jarðris á svæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að búið sé að vinna úr skjálftanum sem varð í morgun. Um er að ræða stærsta skjálftann á svæðinu við fjallið Þorbjörn síðan um kvöldmatarleytið í gær, þegar skjálfti að stærð 3,1 varð 5,6 kílómetra norðnorðaustan af Grindavík.

Sigþrúður segir að upptök skjálftans hafi verið vestan við Þorbjörn. Stærsti jarðskjálftinn undanfarna daga á svæðinu mældist 3,7.

Skjáskot/veðurstofa íslands

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi vegna óvenjulegs landriss vestan við Þorbjörn en fjallið skammt frá Grindavík og Svartsengisvirkjun HS Orku.

Landrisið hefur verið óvenjuhratt síðustu sex daga, eða 3-4 millimetrar á dag, og telja vísindamenn líklegast að kvikusöfnun sé nú undir svæðinu við Þorbjörn. Það gæti verið undanfari eldgoss. Rólegt hefur verið í kringum Þorbjörn í nótt.

Sigþrúður segir að nýjustu GPS-mælingar sem komið hafa á hennar borð í dag sýni áframhaldandi ris. „Það er engin merkjanleg breyting á því.“


Tengdar fréttir

Íbúafundur í Grindavík vegna jarðhræringa

Boðað hefur verið til íbúafundar í íþróttahúsinu í Grindavík klukkan 16 í dag vegna óvissuástands sem lýst hefur verið yfir vegna jarðhræringa við fjallið Þorbjörn í nágrenni bæjarins.

Rólegt í kringum Þorbjörn eftir kippi í gærkvöldi

Það hefur rólegt í kringum fjallið Þorbjörn á Reykjanesi í nótt eftir að skjálfti að stærðinni 3,1 mældist rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi 5,6 kílómetra norðnorðaustur af Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×