Innlent

Fastur á Gunn­ólfs­víkur­fjalli í tólf sólar­hringa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er frá Bolafjalli en starfsmaður Gæslunnar var fastur á Gunnólfsvíkurfjalli í tólf sólarhringa í desember.
Þessi mynd er frá Bolafjalli en starfsmaður Gæslunnar var fastur á Gunnólfsvíkurfjalli í tólf sólarhringa í desember. landhelgisgæslan

Starfsmaður Landhelgisgæslunnar var fastur á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi í tólf sólarhringa þegar mikið óveður gekk yfir landið í desember síðastliðnum.

Frá þessu er greint í færslu á Facebook-síðu Gæslunnar þar sem fjallað er um tvær af þeim fjórum ratsjár- og fjarskiptastöðvum Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem Landhelgisgæslan rekur hér á landi.

Stöðvarnar tvær eru staðsettar á fjallstoppum Gunnólfsvíkurfjalls annars vegar og Bolafjalls hins vegar en þrátt fyrir það sækir fólk vinnu þar daglega.

Sú staða getur komið upp að fólk festist í vinnunni vegna veðurs, stundum svo dögum skiptir:

„Þar sem hver lægðin hefur gengið yfir landið á undanförnum vikum hafa aðstæður í ratsjárstöðvunum tveimur verið afar krefjandi. Til dæmis var starfsmaður Landhelgisgæslunnar fastur á Gunnólfsvíkurfjalli í 12 sólarhringa þegar sögulega óveðrið í desember gekk yfir.

Aðfaranótt sunnudags stóðu starfsmenn Landhelgisgæslunnar vaktina á Bolafjalli en þá náðu vindhviðurnar 70 metrum á sekúndu. Okkar fólk er ekki óvant slíku.

Það er því alveg óhætt að segja að starfsstöðvarnar á fjallstindunum séu nokkuð frábrugðnar því sem gengur og gerist á hefðbundnum vinnustöðum,“ segir í Facebook-færslu Landhelgisgæslunnar sem sjá má hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Óboðlegt að íbúar verði innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, eða SSNV, segir það ástand sem hafi skapast í landshlutanum í óveðrinu fyrr í mánuðinum, vera óviðunandi. Stjórnvöld, stofnanir og aðrir sem eigi hlut að máli verði að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja ástand sem þetta skapist ekki aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×