Innlent

Ekki útlit fyrir að hlaup sé hafið

Sylvía Hall skrifar
Nýjustu upplýsingar úr GPS-gögnum frá Grímsvötnum benda ekki til þess að hlaup sé hafið. 
Nýjustu upplýsingar úr GPS-gögnum frá Grímsvötnum benda ekki til þess að hlaup sé hafið.  Vísir/Vilhelm

GPS-gögn frá Grímsvötnum sýna að íshellan sé aftur farin að hækka og því ekki útlit fyrir að hlaup sé hafið. Vatnshæð og rafleiðni er eðlileg miðað við árstíma en eftirlit með Grímsvötnum hefur verið aukið þar sem vatnsstaða er há og búist er við hlaupi á árinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Fundað var um stöðuna í gær eftir að mælingar sýndu vísbendingar um mögulegt hlaup. Annar fundur átti að fara fram í morgun en honum var frestað eftir að nýjar upplýsingar lágu fyrir.

Ekki er vitað hvað veldur þessum sveiflum í mælingum. Stefnt er að því að sérfræðingar Veðurstofunnar fari í eftirlitsflug á morgun með þyrlu Landhelgisgæslunnar þar sem gasmælingar verða gerðar við Grímsvötn og ástand mælitækja kannað.

Líkt og áður sagði hefur eftirlit verið aukið en jarðmælingar benda til þess að það styttist í gos. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs geti hleypt af stað gosi og því hefur verið fylgst náið með mælingum eftir að útlit var fyrir að hellan væri hætt að rísa. 

Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922 að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×