Erlent

Demókratar íhuga að stefna Bolton til að bera vitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolton vildi ekki bera vitni í rannsókn fulltrúadeildarinnar en skaut skyndilega upp kollinum þegar réttarhöldin yfir Trump stóðu sem hæst.
Bolton vildi ekki bera vitni í rannsókn fulltrúadeildarinnar en skaut skyndilega upp kollinum þegar réttarhöldin yfir Trump stóðu sem hæst. Vísir/EPA

Líklegt er að demókratar sem stjórna fulltrúadeild Bandaríkjaþings stefni John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donald Trump forseta, til að bera vitni og haldi áfram rannsókn á forsetanum eftir að hann verður sýknaður af kæru um embættisbrot í öldungadeild þingsins.

Búist er við því að repúblikanar í öldungadeildinni sýkni Trump af kæru um að hafa misnotað vald sitt og hindrað rannsókn þingsins og bindi enda á réttarhöldin yfir forsetanum þegar í dag. Engin ný vitni voru kölluð til og engin ný gögn voru lögð fram við réttarhöldin. Atkvæðagreiðsla um sekt eða sýknu er á dagskránni um klukkan 21:00 að íslenskum tíma, að sögn Washington Post.

Sýkna öldungadeildarinnar virðist þó ekki ætla að marka endalok rannsóknarinnar á meintum embættisbrotum Trump í tengslum við þrýsting hans á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan keppinaut hans. Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar, segir að demókratar muni „líklega“ stefna Bolton til að bera vitni og halda frekari rannsóknum áfram.

„Mér finnst það líklegt, já,“ sagði Nadler við fréttamann CNN-fréttastöðvarinnar í dag.

Bolton, sem hætti sem þjóðaröryggisráðgjafi Trump í fússi í september, neitaði að bera vitni sjálfviljugur í rannsókn fulltrúadeildarinnar. Demókratar kusu að stefna honum ekki til að bera vitni til þess að draga rannsóknina ekki á langinn á meðan beðið væri niðurstöðu dómstóla um hvort Bolton væri skylt að verða við henni.

Á meðan á réttarhöldunum yfir Trump stóð í öldungadeildinni sagðist Bolton skyndilega tilbúinn að bera vitni. New York Times hafði þá greint frá fullyrðingum Bolton um að Trump hafi sjálfur skilyrt hundruð milljóna hernaðaraðstoð til Úkraínu við að þarlend stjórnvöld féllust á rannsóknir sem hefðu gagnast forsetanum pólitískt. Fullyrðingarnar komu fram í handriti að bók sem Bolton skrifaði og Hvíta húsið hafði fengið til umsagnar.

Embættismenn sem báru vitni í réttarhöldunum lýstu þrýstingsherferð Trump og Rudy Giuliani, persónulegs lögmanns forsetans, gegn úkraínskum stjórnvöldum sem miðaði að því að fá þau til að tilkynna um rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegum mótframbjóðanda Trump í forsetakosningunum í haust. Enginn þeirra  gat þó borið afdráttarlaust vitni um að Trump hefði persónulega staðið að herferðinni þó að það hafi verið skilningur þeirra.


Tengdar fréttir

Trump að öllum líkindum sýknaður á mið­viku­dag

Allar líkur eru á að Donald Trump Bandaríkjaforseti verði sýknaður af ákærum um embættisbrot í öldungadeild bandaríska þingsins, eftir að republikanar felldu tillögu demókrata um að vitni yrðu kölluð til yfirheyrslu vegna málsins í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×