Enski boltinn

Sextíu prósent segja að VAR gangi illa í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Friend í samtali við Varsjáherbergið.
Kevin Friend í samtali við Varsjáherbergið. Getty/Dan Mullan

Fólk sem horfir reglulega á leiki í ensku úrvalsdeildinni tók þátt í nýrri könnun á dögunum og það er óhætt að segja að Varsjáin hafi ekki komið alltof vel út úr henni.

Varsjáin er á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni og hefur heldur betur fengið sinn skerf af gagnrýni. Oft hefur verið of lítið samræmi á milli atvika sem eru skoðuð frekar. Það hefur einnig tekið mjög langan tíma að fara yfir ákveðin atvik og niðurstöður Varsjárinnar eru einnig oft umdeildar.

Yfirmaður VAR í Englandi gaf kerfinu sjö í einkunn af tíu mögulegum en reglulegir áhorfendur ensku úrvalsdeildarinnar gefa VAR aðeins fjóra í einkunn.



YouGov gerði nýverið könnun meðal 1396 manns sem horfa mikið á leiki í ensku úrvalsdeildinni með það markmið að komast að viðhorfi þeirra gagnvart myndbandadómum sem urðu hluti af ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í haust.

Sextíu prósent þátttakenda í könnuninni sögðu að VAR hafi gengið illa í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og aðeins 27 prósent voru á því að VAR hafi gengið vel.

Tveir þriðju af fastaáhorfendum telja líka að upplifunin sé ekki eins ánægjuleg eftir að Varsjáin var kynnt til sögunnar. Aðeins þrettán prósent eru á því að það sé skemmtilegra að horfa á ensku úrvalsdeildina með VAR.

Þrátt fyrir alla þessa neikvæðni gagnvart Varsjánni eru þó aðeins fimmtán prósent sem vilja hætta að nota myndbandadómara. Það eru samt bara átta prósent sem myndu sætta sig við VAR í óbreytti útgáfu. 74 prósent segja að Varsjáin verði að breytast.



81 prósent vilja að sjá þau myndbönd sem myndbandadómararnir eru að skoða hverju sinni og 80 prósent vilja sjá dómarann fara að skoða sjónvarpsskjáinn sjálfur. 73 prósent vilja líka heyra samtalið á milli dómarans og myndbandadómaranna og 71 prósent vilja búa til ákveðin tímaramma sem Varsjáin hefur til að skoða atvik.

Framkvæmdanefnd Alþjóða knattspyrnusambandsins kemur saman í þessum mánuði til að fara meðal annars yfir fótboltareglurnar. Það er búist við að Varsjáin og nánari leiðsögn með notkun hennar verði kynnt í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×