Innlent

Enginn gosórói en yfir 500 jarðskjálftar mælst við Grindavík

Andri Eysteinsson skrifar
Yfir 500 jarðskjálftar hafa mælst í námunda við Grindavík en á svæðinu við fjallið Þorbjörn hefur land risið um 4 sentimetra.
Yfir 500 jarðskjálftar hafa mælst í námunda við Grindavík en á svæðinu við fjallið Þorbjörn hefur land risið um 4 sentimetra. Vísir/Vilhelm

Yfir 500 jarðskjálftar hafa mæst í grennd við Grindavík síðasta sólarhring, stærstur var skjálftinn sem hófst 22:24 í gærkvöldi, 4,3 að stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Skjálftarnir í hrinunni eru jafnframt þeir stærstu sem mælst hafa frá því að virkni hófst 21. janúar síðastliðinn. Töluvert hefur dregið úr virkninni með morgninum en gera má ráð fyrir að hrinan muni halda áfram.

Í tilkynningunni segir að líklegast starfi jarðskjálftavirknin af spennubreytingum vegna landriss sem mælst hefur á svæðinu en nýjasta GPS úrvinnsla sýnir að land á svæðinu vestan við fjallið Þorbjörn hefur risið yfir 4 cm frá 20. janúar.

Enginn gosórói hefur mælst í kjölfarið en jarðfræðingar Veðurstofunnar fylgjast grannt með stöðu mála.

Fjórir af fimm stærstu skjálftum hrinunnar hófust fyrir miðnætti og voru þeir af stærðum 3,4 klukkan 21:45, 4,0 klukkan 22:22, 4,3 klukkan 22:24 og 3,3 klukkan 22:54. Stærsti jarðskjálftinn í morgun var að stærð 3,0 og hófst klukkan 05:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×