Enski boltinn

Segja að Liverpool fái aldrei 2014 titilinn af þvi að félagið braut líka af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard getur gleymt því að fá enska meistaratitilinn frá 2014 á silfurfati.
Steven Gerrard getur gleymt því að fá enska meistaratitilinn frá 2014 á silfurfati. Getty/AMA/Corbis

Draumur Liverpool manna og þá sérstaklega Steven Gerrard um að hann verði enskur meistari virðist enn einu sinni orðinn að engu.

Eftir að Manchester City var dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeildinni vegna brota um reksturs fótboltafélaga á árunum 2012 til 2016 fóru spekingar að búast við því að þessi brot gætu einnig þýtt það að City myndi missa Englandsmeistaratitilinn frá árinu 2014.

Liverpool missti titilinn frá sér á lokasprettinum þetta ár og endaði að lokum tveimur stigum á eftir Manchester City. Missi Manchester City þennan titil ætti hann að fara til liðsins í öðru sæti sem var Liverpool.

Það á auðvitað margt eftir að gerast hvað varðar dóm UEFA og Manchester City ætlar að áfrýja og berjast hatramlega á móti honum.



Svo langt var umræðan komin um hugsanlegan Englandsmeistaratitil Liverpool að Steven Gerrard tjáði sig aðeins um málið. Steven Gerrard lék í sautján ár hjá Liverpool en varð aldrei enskur meistari. Hann hefur aldrei verið nærri titlinum en einmitt vorið 2014 en slæm mistök hans í næstsíðasta heimaleiknum á móti Chelsea voru Liverpool liðinu afar dýrkeypt.

Það er þá betra en ekkert að fá gullpeninginn sinn sex árum of seint en aldrei. Steven Gerrard getur samt sleppt því að búa til pláss fyrir hann í verðlaunaskápnum.

The Times skrifaði nefnilega frétt um að Liverpool hafi einnig brotið af sér og því verði ekkert að því að Liverpool fái þennan 2014 titil á silfurfati. Það er eitt að enska úrvalsdeildin taki titil af félagi og svo allt annað að láta annað lið fá hann sem hefur ekki heldur hreinan skjöld..

Um er að ræða svokallað „spygate“ þar sem Liverpool var sakað um að hafa brotist inn í gagnagrunn Manchester City yfir leikmenn sem félagið er að skoða.

Liverpool var ekki dæmt fyrir þetta brot sitt en félögin sömdu um bætur utan dómstóla. Talið er að Liverpool hafi greitt City eina milljón punda til að bæta fyrir njósnirnar.

Liverpool mun því fagna nítjánda meistaratitli sínum en ekki þeim tuttugasta seinna á þessu tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×