Enski boltinn

Mourinho segir að mögulegt bann Man City hafi engin áhrif á Tottenham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mourinho í leik Tottenham og Aston Villa í gær.
Mourinho í leik Tottenham og Aston Villa í gær. Vísir/Getty

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að mögulegt bann Manchester City frá Meistaradeild Evrópu muni ekki hafa áhrif á hugarfar Tottenham liðsins. Þetta kom fram á Sky Sports fyrr í dag.

Tottenham vann Aston Villa á útivelli í gær þökk sé sigurmarki Son Heung-Min í uppbótartíma leiksins. Mourinho sagði eftir leik að hvað sem gerist hjá Manchester City þá verði Tottenham að halda áfram baráttunni um 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Standi bannið, og City endar í efstu fjórum sætum deildarinnar, þá mun 5. sætið gefa þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu en Tottenham er sem stendur í 5. sæti deildarinnar.

Aðspurður út í mögulegt bann City þá gantaðist Mourinho með það að hann væri helst til í að sjá það hafa áhrif á stigafjölda Manchester City á leiktíðinni 2017/2018. En það sama tímabil endaði Manchester United, undir stjórn Mourinho, í 2. sæti deildarinnar.

„Ég er ekki að hugsa um 4. eða 5. sætið. Ég er að einbeita mér að því að ná því besta út úr mínu liði, ná í eins mörg stig og við getum til að enda í sem bestri stöðu,“ sagði Mourinho um málið.

„Þegar tímabilinu lýkur þá sjáum við hvar við erum, kannski endum við í 6. eða 7. sæti og þá skiptir engu máli ef 5. sætið gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Þangað til endanlega hefur verið dæmt í málinu þá eiga Manchester City að fá að njóta vafans,“ sagði Mourinho að lokum en félagið hefur áfrýjað ákvörðun UEFA.


Tengdar fréttir

Leikmenn Man. City kallaðir á krísufund

Forráðamenn Manchester City kölluðu leikmenn liðsins á sérstakan fund í gær í kjölfar þeirrar niðurstöðu að félagið hafði verið bannað frá Meistaradeild Evrópu næstu tvær leiktíðir.

Loksins kom sigur hjá Arsenal

Arsenal vann öruggan 4-0 sigur á Newcastle United í síðari leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×