Innlent

Rennsli orðið eðlilegt í Skógafossi

Sylvía Hall skrifar

Hætta á flóði úr Skógá virðist vera liðin hjá að sögn Sigurðar Sigurbjörnssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi. Svæðið við Skógafoss var rýmt síðdegis í gær vegna mögulegrar krapastíflu fyrir ofan fossinn.

Lögregla fékk í gær ábendingu um óvenju lítið rennsli í fossinum. Í kjölfarið voru aðstæður athugaðar og í ljós kom að rennslið var mun minna en vanalega. Því þótti líklegt að krapastífla hefði myndast fyrir ofan fossinn og hætta á að áin gæti skyndilega rutt sig og valdið flóði.

Sjá einnig: Svæðið við Skógafoss rýmt vegna mögulegrar krapastíflu

„Ég fór í morgun og kíkti á þetta og það er bara orðið eðlilegt vetrarrennsli,“ segir Sigurður í samtali við Vísi. Lögregla hafi þó ákveðið í gær að rýma bílastæðið og beðið ferðamenn á svæðinu að koma sér frá fossinum til þess að taka enga áhættu.

„Sú hætta virðist vera liðin hjá.“

Í samtali við Vísi í gær sagði Sigurður að ekki væri staðfest að um krapastíflu væri að ræða en engin dæmi væru þó þekkt um það að stífla hefði brostið í ánni. Hann segir þó að það sé líklegasta orsökin fyrir því að rennslið hafi verið jafn lítið og raun bar vitni.

„Við leiðum að því líkum að það hafi verið svoleiðis. Það er ekkert annað sem gæti hafa valdið þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×