Innlent

Skásta veðrið í Vestur­bænum og Hlíðunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá síðustu sprengilægð í desember.
Frá síðustu sprengilægð í desember. Vísir/Vilhelm

Veðrið á höfuðborgarsvæðinu á morgun verður verst í efri byggðum og við ströndina en erfiðara er að segja til um svæðin þar sem skjólsælla verður. Líklegast verður veður þó skást í Vesturbænum og Hlíðunum.

Rauð viðvörun tekur gildi í fyrsta sinn á höfuðborgarsvæðinu klukkan sjö í fyrramálið. Þar má búast við 20-30 m/s, snjókomu, skafrenningi og lélegu skyggni. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og hefur akstri Strætó á höfuðborgarsvæðinu þegar verið aflýst í fyrramálið.

Á vef Veðurstofunnar er þess sérstaklega getið í lýsingu á rauðu viðvöruninni fyrir höfuðborgarsvæðið að örfá hverfi verði í þokkalegu skjóli fyrir austanátt, og veðrið nái sér því síður á strik þar.

Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að erfitt sé að segja til um hvaða hverfi það verði. Líklegast verði veðrið þó hægara í Hlíðunum og Vesturbænum, í það minnsta í „hreinni“ austanátt.

„[…] og þetta verður eitthvað misskipt, veðrið í bænum. En við verðum að vara við í allri borginni,“ segir Þorsteinn.

En hvar verður veðrið verst? Í efri byggðum, segir Þorsteinn: í Vallahverfi, Kórahverfi og Norðlingaholti, sem og á Kjalarnesi, Geldinganesi, Sundunum og út að Seltjarnarnesi.

Veðrið skellur á í höfuðborginni strax í nótt. Þannig tekur gul viðvörun gildi upp úr klukkan tvö, appelsínugul klukkan fimm og rauð verður í gildi frá klukkan sjö til ellefu á morgun.

„Á háannatíma,“ segir Þorsteinn. „Við erum líka að spá smá snjókomu og þá verður svo mikið kóf að fólk sér ekki neitt og þá hægist á umferðinni.“ Þess vegna sé því beint til fólks að halda sig heima, hafi það tök á.

Þá hefur vefur Veðurstofunnar, vedur.is, látið ófriðlega í dag. Vefurinn lá niðri um tíma og er ekki enn kominn aftur í gagnið að fullu. Þorsteinn segir að tæknimenn vinni sveittir að viðgerð og hafi gert síðan í morgun. Það mikilvægasta nú sé að koma út viðvörununum en sá hluti vefsins er í lagi.

Fylgjast má með nýjustu tíðindum af veðrinu í veðurvakt Vísis hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×