Innlent

Óska eftir vitnum að grófri árás á fjórtán ára dreng

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásin var gerð við strætisvagnastoppistöð í Hamraborg í Kópavogi á mánudagskvöld.
Árásin var gerð við strætisvagnastoppistöð í Hamraborg í Kópavogi á mánudagskvöld. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú grófa líkamsárás sem átti sér stað í Hamraborg í Kópavogi um kvöldmatarleytið á mánudag í síðustu viku, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu. Þar veittist hópur unglingspilta að pilti á líku reki og óskar lögregla nú eftir vitnum að árásinni.

Fram kom í gær að hópur drengja hefði ráðist á fjórtán ára pilt við strætisvagnastöð í Hamraborg. Árásin var tekin upp á myndband, sem komst í dreifingu á samfélagsmiðlum í kjölfarið.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi árásarmennirnir verið á bak og burt. Drengurinn sem varð fyrir árásinni var hins vegar enn á vettvangi og hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Lögregla segir jafnframt í tilkynningu að um grófa árás hafi verið að ræða. Við rannsókn málsins er m.a. stuðst við myndefni af árásinni og telur lögreglan sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni.

Þeir sem urðu vitni að árásinni, eða búa yfir vitneskju henni tengdri, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu. Upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið heimir@lrh.is.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu. Málið er unnið með aðkomu barnaverndaryfirvalda.

Í gær var haft eftir föður drengsins sem varð fyrir árásinni að hann sé enn að jafna sig og glími við höfuðverk og uppköst. Faðirinn rekur ástæður árásarinnar mögulega til útlendingaandúðar en drengurinn er af erlendum uppruna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×