Innlent

Jarðskjálfti að stærð 3,2 við Kleifarvatn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjálftakort Veðurstofunnar frá klukkan 18 í dag. Skjálftinn við Kleifarvatn er merkt með grænni stjörnu.
Skjálftakort Veðurstofunnar frá klukkan 18 í dag. Skjálftinn við Kleifarvatn er merkt með grænni stjörnu. veðurstofa íslands

Klukkan 16:17 varð skjálfti að stærð 3,2 við Kleifarvatn á Reykjanesskaga. Tilkynningar bárust um að skjálftinn hefði fundist á höfuðborgarsvæðinu, flestar úr Hafnarfirði en einnig úr Reykjavík að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Að því er segir á vef Veðurstofunnar hefur dregið úr skjálftahrinunni við Reykjanestá en enn mælast jarðskjálftar á svæðinu. Hafa um 750 skjálftar mælst á svæðinu frá því virknin hófst þann 15. febrúar.

Þá varar Veðurstofan enn við hellaskoðun við Eldvörpin á Reykjanesskaganum. Gasmælingar þar að undanförnu hafa sýnt lífshættuleg gildi á koltvísýringi og súrefnisskort í helli við bílastæði þaðan sem eru vinsælar gönguleiðir.

Það hefur síðan dregið verulega úr jarðskjálftavirkni við Þorbjörn að undanförnu og ekkert landris mælist lengur. Líklegasta skýringin er sú að kvikuinnflæði sé lokið í bili.

Vísbendingar eru um lítilsháttar sig frá miðjum febrúar en of snemmt er að túlka mælingarnar. Óvissustig almannavarna er enn í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×