Innlent

Slapp frá einni líkamsárás en handtekinn við aðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Þrír menn voru handteknir fyrir að brjótast inn í fyrirtæki en einn þeirra átti þar að auki að vera í sóttkví.
Þrír menn voru handteknir fyrir að brjótast inn í fyrirtæki en einn þeirra átti þar að auki að vera í sóttkví. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Mikið var um hávaðaútköll vegna samkvæma og mikil ölvun. Alls gistu þrettán fangaklefa í nótt.

Í Kópavogi var ráðist á mann sem hafði þá tekið peninga úr hraðbanka. Árásarmennirnir reyndu að ná af honum peningunum en tókst það ekki. Maðurinn varð þó fyrir líkamsárás og var meðal annars sparkað í hann samkvæmt dagbók lögreglu. Þar segir að sá sem hafi haft sig mest fram í árásinni hafi komist undan lögreglu.

Hann var þó handtekinn seinna í nótt og þá vegna annarrar líkamsárásar.

Minnst þrír menn voru handteknir fyrir líkamsárásir og heimilisofbeldi. Allir gistu fangageymslur í nótt

Þá voru þrír aðilar handteknir þegar þeir brutust inn í fyrirtæki í Hlíðahverfi. Einn þeirra verður einnig ákærður fyrir brot á sóttvarnalögum, þar sem viðkomandi átti að vera í sóttkví.

Tveir voru svo handteknir fyrir að brjótast í bíla, aðrir fyrir sölu og dreifingu á fíkniefnum og einn fyrir húsbrot, eignaspjöll og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Kona slasaðist þegar hún féll af reiðhjóli eftir að árekstur við annan hjólreiðamann. Flytja þurfti ökumann bifhjóls á sjúkrahús eftir að hann ók á steyptan klump. Þá lentu fjórar stúlkur í vandræðum á hjólabát út á Elliðavatni. Þeim varð þó ekki meint af og tókst að aðstoða þær í land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×