Þann 5. september mætast Ísland og England í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli. Gareth Southgate, landsliðseinvaldur enska karlalandsliðsins, ætlar að mæta með eins sterkt lið og mögulegt er í leikinn. Þetta kemur fram í Sky Sports um komandi landsliðsverkefni Englands.
Honum virðist slétt sama þó leikmenn Manchester United, Manchester City og Chelsea séu varla komnir í sumarfrí. Hann ætlar að boða alla þá sem hann telur eiga skilið í komandi landsliðsverkefni.
Harry Maguire gæti sloppið einfaldlega vegna þessa að hann var handtekinn á grísku eyjunni Mykonos. Mögulega gæti landsliðssæti Harry verið í hættu en Southgate vill að sínir leikmenn hagi sér öllum stundum, allan ársins hring.
Leikmenn munu hittast á St. George´s vellinum – æfingasvæði enska landsliðsins – þann 30. ágúst og hefja undirbúning fyrir leikinn gegn Íslandi. Það þýðir að þeir leikmenn Man United sem verða valdir hafa aðeins fengið 13 daga í sumarfrí. Leikmenn Man City munu aðeins hafa fengið 14 daga sumarfrí.
Virðist sem Southgate noti önnur lönd sem fordæmi en David De Gea, markvörður United, er til að mynda í spænska landsliðshópnum.
Athygli vekur að ensku félögin höfðu samið við enska knattspyrnusambandið sem og leikmenn sína um þeir myndu fá 30 daga í frí. Þeir fá ekki einu sinni helminginn af því.
Talið er að Ben Chilwell, Luke Shaw, Alex Oxlade-Chamberlain, James Maddison og Jordan Henderson missi allir af verkefninu vegna meiðsla. Þá er óvissa með Harry Kane þar sem hann er í sóttkví eftir að hafa farið í frí til Bahamsas.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig hópurinn verður og hvernig þeim leikmönnum sem hafa fengið hvað minnsta hvíld mun ganga á komandi vikum og mánuðum. Knattspyrnumenn eru nú mannlegir eftir allt saman.