Lífið

„Eins og smábarn aftur“ eftir alvarlegt bílslys

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fannar Freyr Þorbergsson og Kristjana Kristjánsdóttir voru í barneignarhugleiðingum þegar hann lamaðist árið 2017. Hann bauð henni að fara eftir slysið, en hún tók það ekki í mál.
Fannar Freyr Þorbergsson og Kristjana Kristjánsdóttir voru í barneignarhugleiðingum þegar hann lamaðist árið 2017. Hann bauð henni að fara eftir slysið, en hún tók það ekki í mál. Mynd úr einkasafni

Fannar Freyr Þorbergsson beið hálsbrotinn í sex tíma við hliðina á veginum eftir að hafa lent í alvarlegu bílslysi og horfði á bíla keyra fram hjá. Hann hlaut skaða á mænu og lamaðist fyrir neðan brjóst en gafst aldrei upp og er í dag í námi og reynir líka að eignast fjölskyldu með konunni sem hefur staðið með honum allan tímann. 

Þegar Fannar lenti í bílslysi þann 19. október árið 2017 var þá nýútskrifaður sem vélstjóri og bjó ásamt kærustu sinni Kristjönu Kristjánsdóttur á Ísafirði, þau voru nýbúin að safna sér fyrir útborgun á íbúð og farin að huga að barneignum þegar örlögin gripu í taumanna. Ísland í dag heimsótti þau Fannar og Kristjönu og má horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum neðst í fréttinni.

Fannar var á leiðinni heim til Ísafjarðar seint að kvöldi eftir heimsókn til tannlæknis í Reykjavík þegar hann missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann slasast alvarlega í bílveltunni. Bíllinn lenti það langt frá veginum að það var ekki nokkur leið fyrir aðra bíla að koma auga á bílinn hans og sat Fannar fastur í bílnum í rúmlega sex klukkustundir.

Þegar Fannar vaknar, var hann ringlaður og gerði hann sér ekki grein fyrir því að hann væri alvarlega slasaður. Hann reyndi að færa sig til í bílsætinu þar sem höfuðið hékk fram en hann náði ekki að reisa sig við.

„Það heppnaðist ekki og ég vissi ekki af hverju. Ég var sem sagt hálsbrotinn og fór úr hálshryggjarlið,“ segir Fannar.

Bíllinn var það langt frá veginum að bílar sem fóru framhjá sáu hann ekki.

Tilkynnti hann týndan

Fannar man ekki mikið frá slysinu og biðinni í bílnum. Minnið hans marga mánuði í kringum slysið er enn gloppótt, þremur árum síðar. Hann man því aðeins minningabrot.

„Ég horfði upp á veginn og sá út frá mér veginn fyrir ofan. Ég sá bílljós keyra fram hjá og ég var náttúrulega dálítið ringlaður og ekki með fullum fimm. Ég öskraði á bílinn „Af hverju eruð þið ekki að stoppa og hjálpa mér?“ alveg brjálaður. En þau sáu mig náttúrulega ekkert og heyrðu ekki í mér, þetta var bíll sem ég var að öskra á ekki manneskjur.“

Kristjana hafði verið í sambandi við Fannar á leiðinni, hún vissi hvenær hún ætti von á honum heim og þegar hann skilaði sér ekki á réttum tíma og svaraði ekki í síma fann hún á sér að ekki væri allt með felldu. Eftir að hún fór að ókyrrast reyndi hún að hringja í Fannar og hringdi svo í móður hans. Á endanum leitaði hún til lögreglunnar.

„Ég tilkynnti hann týndan og hann fannst held ég klukkutíma síðar,“ segir Kristjana.

Ísbað í miðri aðgerð

Fannar var orðinn mjög kaldur, hafði misst mikið blóð og var illa á sig kominn þegar björgunarsveitin fann hann og var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem fór strax í aðgerð og var í annað sinn nær dauða en lífi.

„Í aðgerðinni fær hann illkynja háhita,“ útskýrir Kristjana. Fannar bætir við að þetta séu ofnæmisviðbrögð við gösunum sem notuð eru til að svæfa mann. Hitti Fannars varð 42 stig í þessari aðgerð og þurfti að setja hann í ísbað.

„Maður var heppinn með að það var svæfingalæknir sem var þarna sem hafði séð þetta gerast einu sinni áður. Þetta teymi sem var þarna brást hárrétt við,“ segir Fannar. Á einum tímapunkti voru 40 heilbrigðisstarfsmenn í herberginu að reyna að bjarga lífi Fannars. Nýrun hættu að virka og honum var haldið sofandi í tvo sólarhringa á eftir.

„Ég er mjög þakklátur fyrir allt þetta fólk.“

Fannar þakkar björgunarsveitinni, lögreglunni, læknunum eins og þeim sem löguðu beinbrotið á mænunni og öllum sem komu að endurhæfingunni á Grensás. Hann vissi strax þegar hann vaknaði að hann væri ekki að fara að starfa sem vélstjóri.

Fannar segist þakklátur öllum þeim sem komu að því að bjarga lífi hans. Hann segir að hann hefði ekki verið á þessum stað í dag ef ekki væri fyrir stuðning unnustunnar.Mynd úr einkasafni

Eins og klettur

Fannar þjáðist af kvíða og þunglyndi þegar hann var yngri og segir að það hafi hjálpað honum mikið í ferlinu að hafa kunnað að vinna úr slíkum tilfinningum og segist sloppið við slæmar hugsanir og frá fyrsta degi einbeitt sér að því að lifa lífinu og líta ekki til baka með sorg. „Ég sagði við hana, „Ég erfi það ekkert við þig ef þú vilt fara. Ég verð ekkert sár eða reiður eða neitt.““

Hann vissi að fram undan væri stórt verkefni og að lífið yrði ekki eins og þau höfðu séð það fyrir sér.

„Ég var búinn að hálsbrotna einu sinni og mér sýndist eins og hún ætlaði að fara að hálsbrjóta mig aftur,“ segir Fannar um viðbrögðin þegar hann kom með þessa uppástungu. Kristjana leit á þetta sem sameiginlegt verkefni og var ekki á leiðinni að fara neitt.

„Hann margreyndi að henda mér í burtu og bauð mér þann valmöguleika, ég sló hann bara og sagði nei þú reynir þetta ekkert,“ segir Kristjana. Fannar segir að í gegnum þetta allt hafi hún staðið sem klettur við hlið hans.

„Maður væri ekkert kominn jafn langt í lífinu ef hún væri ekki hérna.“

Kristjana viðurkennir að í byrjun hafi þetta verið svolítið mikið, enda þarf Fannar hjálp við hægðir og fleira.

„En í dag er hann orðinn voðalega sjálfbjarga,“ segir Kristjana stolt.

Fannar og Kristjana sögðu sögu sína í þættinum Ísland í dag.Skjáskot

Lífið heldur áfram

„Þetta er dálítið eins og að verða smábarn aftur,“ segir Fannar. Hann þurfti að læra allt upp á nýtt, þar á meðal að borða.

Hann var áður mikið í fjallgöngum og í hjólreiðum og segist ekki syrgja það líf heldur nýtur þess að hreyfa sig með breyttum hætti og tæknin sé orðin frábær og geri honum og öðrum í sömu stöðu kleift að hreyfa sig og njóta lífsins.

Parið vinnur í því að eignast barn saman en lömun Fannars og endómetríósa Kristjönu flækir það verkefni. Þau höfðu nú þegar verið hætt á getnaðarvörnum þegar slysið varð árið 2017 og ætluðu þá að byrja að reyna.

„Við erum þakklát ef við náum þessu, að geta þetta, allar áskoranir eftir það verða bara velkomnar.“

Fannar stundar nám við tölvunarfræði í HR í dag og Kristjana starfar sem leikskólakennari og er í mastersnámi, þau segja að slysið hafi kennt þeim að njóta lífsins betur og njóta litlu hlutanna sem þau tóku sem sjálfsögðum hlut.

„Lífið heldur alveg áfram þó að þú slasir þig. Maður verður bara að halda áfram,“ segir Fannar.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.