Erlent

Lokar á út­sendingu frá síðustu stundum manns sem var meinað um dánar­að­stoð

Atli Ísleifsson skrifar
Alain Cocq þjáist af sjaldgæfum og ólæknandi sjúkdómi þar sem veggir slagæðanna límast saman.
Alain Cocq þjáist af sjaldgæfum og ólæknandi sjúkdómi þar sem veggir slagæðanna límast saman. Skjáskot

Facebook hefur lokað fyrir beina útsendingu fransks manns sem hafði í hyggju að sýna beint frá síðustu dögum lífs síns.

AFP segir frá þessu. Beiðni Alain Cocq um dánaraðstoð hafði verið hafnað af Emmanuel Macron Frakklandsforseta og ætlaði hann sér því að sýna beint frá síðustu stundum lífs sín á Facebook þar sem hann hugðist svelta sig og ekki taka inn lífsnauðsynleg lyf.

Cocq þjáist af sjaldgæfum og ólæknandi sjúkdómi þar sem veggir slagæðanna límast saman. Hann hugðist hefja útsendingu núna í morgun, en áður hafði hann sagt að hann teldi sig eiga innan við viku ólifaða.

Hinn 57 ára Cocq hafði ritað Macron forseta bréf og óskað eftir því að fá að taka inn efni sem myndi leyfa honum að deyja. Forsetinn svaraði honum að frönsk löggjöf heimilaði ekki slíkt.

Cocq sagðist vona til að með þessu myndi hann geta vakið athygli á aðstæðum dauðvona sjúklinga og að óskir þeirra um dánaraðstoð yrðu virtar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×