Fótbolti

Engin Meistara­deildar­þynnka í Bayern sem valtaði yfir Schalke

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óstöðvandi Bæjarar skoruðu átta mörk í kvöld.
Óstöðvandi Bæjarar skoruðu átta mörk í kvöld. M. Donato/Getty Images

Bayern München byrjar nýtt tímabil þar sem frá var horfið á því síðasta. Schalke 04 mætti á Allianz Arena, heimavöll Bæjara, í kvöld og var tekið í kennslustund. Lokatölur 8-0 þar sem Þýskalandsmeistararnir sýndu enga miskunn.

Aðeins örfáar vikur eru síðan Bayern vann PSG 1-0 í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þá var Thiago - besti leikmaður úrslitaleiksins - seldur til Liverpool í dag. Það kom þó ekki að sök þar sem Serge Gnabry var búinn að skora þegar innan við fjórar mínútur voru komnar á klukkuna.

Leon Goretzka tvöfaldaði forystuna á 19. mínútu og Robert Lewandowski bætti við þriðja marki Bayern með marki úr vítaspyrnu þegar rúmur hálftími var liðinn. Schalke hélt út fram að hálfleik og var því aðeins 3-0 undir þegar síðari hálfleikur byrjaði.

Líkt og í fyrri hálfleik var það Gnabry sem skoraði stuttu eftir að leikurinn var flautaður aftur á. Hann fullkomnaði svo þrennu sína þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum. Bæjarar stöðvuðu ekki þar, Thomas Müller skoraði á 69. mínútu og nýi maðurinn - Leroy Sane - tveimur mínútum síðar. 

Jamal Musiala setti svo skrautið á kökuna með áttunda marki Bæjara þegar níu mínútur voru eftir.

Lokatölur 8-0 í leik sem Schalke 04 vill eflaust gleyma sem fyrst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×